Satellite
  • Day 3

    Áfangastaðir

    March 22, 2017 in Iceland ⋅ ☀️ -9 °C

    Hvernig velur maður sér áfangastaði fyrir flakkferð? Það er ósköp gaman að mæta bara á staðinn og ráfa um og uppgötva staði og njóta ferðafrelsisins, en maður vill líka fá eins mikið út úr ferðalögum og hægt er. Til þess þarf einhverja grunnskipulagningu, t.d. lista yfir áhugaverða staði og hagnýtar upplýsingar um þá, s.s. hvenær þeir eru opnir og hvort þeir loka á einhverjum tilteknum vikudögum og hvort maður er á ferðinni á opinberum frídegi – ég verð t.d. á ferðinni á uppstigningardag, sem er frídagur í Þýskalandi.

    Eins og ég minntist á áður byggist ferðalagið á stöðum á heimsminjaskrá UNESCO, og heimsókn í Neuschwanstein-kastala. Ég bætti síðan við nokkrum minna þekktum stöðum sem ég fann á hinni frábæru vefsíðu Atlas Obscura (http://www.atlasobscura.com/) sem voru í leiðinni eða rétt hjá henni. Loks bættust við nokkrir staðir sem fólk mælti með við mig, og áhugaverðir staðir sem ég rakst á á netvafri.

    Skyldustoppin eru, á þessum tímapunkti, eftirfarandi, með ástæðum:

    +Aarhus í Danmörku. Þar á ég ættingja sem hafa boðið mér í kaffi. Ég ætla líka að athuga hvort það eru einhverjar áhugaverðar sýningar í gangi í Aros-listasafninu.
    +Flensburg í Þýskalandi. Þar er Caravan Center Nord, stærðarinnar húsbílaverslun sem ég ætla að kíkja í til að sjá hvort ég rek augun í eitthvað sem ég verð að eignast í bílinn.
    +Lübeck. UNESCO.
    +Wismar og Stralsund. UNESCO.
    +Rügen-eyja. Jasmund þjóðgarðurinn og náttúrufegurð.
    +Berlín. UNESCO og fleira: Safnaeyjan, önnur söfn (t.d Trabant-safnið) og menning. Líka KaDeWe-stórverslunin.
    +Potsdam. UNESCO: Sansoucci-höll og garðarnir í kringum hana, og fallegur miðbær.
    +Dessau-Wörlitz-garðarnir. UNESCO. Skrúðgarðar í ýmsum stíl.
    +Meissen. Postulínssafn og –verksmiðja.
    +Dresden. Falleg borg.
    +Bamberg. UNESCO. Lifandi safn.
    +Berechtsgaden þjóðgarðurinn. Náttúrufegurð.
    +Alpenstrasse. Falleg útsýnisleið frá Königsee-vatni til Bodensee-vatns. Fer hana sennilega ekki alla, en part úr henni. Skoða hugsanlega Zugspitze-fjall og Röthbachfall-foss.
    +Neuschwanstein og Hohenschwangau.
    +St. Gallen í Sviss. UNESCO.
    +Reichenau-eyja á Bodensee. UNESCO. Skrúðgarður.
    +Colmar í frakklandi. Falleg borg.
    +Strasbourg í Frakklandi, UNESCO.
    +Bergpark Wilhelmshöhe í Kassel, Þýskalandi. UNESCO. Garður.
    +Corvey-höll. UNESCO.

    „Kannski“ staðirnir eru hins vegar þrisvar sinnum fleiri.
    Read more