Satellite
  • Day 22

    Nú er ég hætt þessu!

    September 16, 2019 in Italy ⋅ 🌙 23 °C

    Ég er búin að gefast upp á hitanum og ætla að taka stefnuna norður á bóginn. Það er lítið mál að vera í svona hita á daginn, en að sofa í þessu á nóttunni er skelfilegt. Eini tími dagsins þegar það er einhver svali er seint á nóttunni/eldsnemma á morgnana, og það er þá sem ég loksins næ að hvílast aðeins.

    Ég ákvað að Mílanó, Como-vatn og Cinque Terre gætu beðið til betri tíma ( t.d. þegar ég tek suður-Ítalíurúnt eða kannski flýg ég bara til Mílanó og skoða hitt í leiðinni). Tók því strikið til San Remo, með viðkomu í Genúa. Sú borg er ekkert smá falleg, en umferðin þar er hryllingur. Rivíeran eins og hún leggur sig er mjög falleg. Að keyra meðfram Levante-ströndinni er eins og að vera í Flórída, mínus öll ljótu auglýsingaskiltin. Autostradan sem ég ók eftir í dag liggur í bókstaflegri merkingu í gegnum, eða kannski undir, Lígúríu-hérað - það er svo mikið af veggöngum á leiðinni.

    Er nú í smábæ stutt frá frönsku landamærunum. Ætla á morgun í sædýrasafnið í Mónakó, og taka svo stefnuna í norður. Gæti vel hugsað mér að koma við í Genf og halda svo til Lúxemborgar og etv. Belgíu.
    Read more