Á ferð og flugi um landið.
Message
 • Day64

  Partnachklamm, Garmisch-Partenkirchen

  May 22, 2017 in Germany ⋅ ⛅ 22 °C

  Ég náði loksins öðrum góðum labbitúr úti í náttúrunni. Þegar ég kom niður af Zugspitze dreif ég mig með strætó niður að skíðaleikvanginum sem var byggður fyrir vetrarólympíuleikana 1936 og gekk þaðan upp í Partnach-gljúfur, sem verður einn af hápunktum ferðarinnar. Þarna streymir ísköld jökulá ofan úr Zugspitze-jöklinum um þröngt og djúpt gljúfur sem hefur verið gert manngengt með mikilli fyrirhöfn.

  Gekk síðan upp fjallið fyrir ofan gljúfrið, fékk mér hressingu á hinni óumflýjanlegu fjallakrá og kom hringleið niður mjög bratta fjallshlíð.

  Alls mældust 6,3 km, en síminn missti GPS-sambandið niðri í gljúfrinu, svo þetta hafa verið nær 7 km. Skynjarinn í símanum mínum ákvað að ég hefði hjólað af því ég var svo fljót niður!

  Í lokin er mynd af skíðastökkpöllunum, af því mér þykja þeir svo aumkunarverðir að sumarlagi.

  P.s. ef ég minnist á eitthvað og myndirnar vantar, prófið þá aftur síðar. Internetsamband hérna er almennt lélegt og ég verð að hlaða myndunum upp einni í einu.
  Read more

 • Day64

  Zugspitze, Þýskalandi/Austurríki

  May 22, 2017 in Germany ⋅ ☀️ 10 °C

  Fyrst mænir maður á tindinn;
  síðan gerir maður eitthvað í því;
  dáist að dýralífinu;
  fær sér hressingu;
  og dáist að útsýninu á leiðinni niður (Eibsee).

  Fögur fjallasýn og dæmigerð alpakirkja.

  Zugspitze er hæsta fjall Þýskalands og landamærin við Austurríki liggja um tindinn. Því miður var ekki hægt að fara alla leið upp með kláfi - það er verið að byggja nýja kláfabraut og því varð ég að taka tannhjólalest og síðan stutta leið á tindinn með litlum kláfi.
  Read more

 • Day63

  Berchetsgaden, Þýskalandi, 21. maí

  May 21, 2017 in Germany ⋅ ⛅ 10 °C

  Það er rignig og og lágskýjað. Fer ekki mikið í gönguferð í þjóðgarðinum (skildi pollagallann eftir heima) eða upp á Kehlstein. Langar mest að fara til Salzburg, því hennar er hægt að njóta í rigningu.

  En Alpenstrasse bíður, og ég vona bara að veðrinu létti þegar líður á daginn.

  P.s. Það er samr fallegt hérna þó það rigni.
  Read more

 • Day62

  Königssee, Þýskalandi, 20. maí

  May 20, 2017 in Germany ⋅ ⛅ 13 °C

  Fór í siglingu á Königssee. Læt myndirnar tala.

 • Day62

  Berchtedsgaden, Þýskalandi (19. maí)

  May 20, 2017 in Germany ⋅ ⛅ 13 °C

  Vaknaði frekar seint í morgun, enda lenti ég í þvílíkri baráttu við náttúruöflin í gær að ég var alveg búin á því þegar ég loks komst í örugga höfn. Ég lenti sem sagt í því að keyra, í fyrsta og vonandi síðasta skipti, í þrumuveðri með sviptivindum og brjálaðri rigningu og niðandi myrkri. Var mjög þakklát fyrir að geta elt ljósin á flutningabílnum fyrir framan mig.

  En áður en það gerðist var steikjandi hiti og sól - fór í 30°C. Eftir að hafa heimsótt hina hrollvekjandi rjómatertubasiliku í Waldsassen skoðaði ég Valhöll við Dóná - minnismerki frá 19. öld um þýskt þjóðarstolt. Skrítið hún skuli vera eftirmynd af grísku musteri...
  Read more

 • Day61

  Waldsassen, Þýskalandi, 19. maí

  May 19, 2017 in Germany ⋅ ☀️ 23 °C

  Þessi basilika er skoðunarverð ef menn hafa áhuga á skreytilist, því þó hún sé einföld að sjá að utanverðu, þá er hún eins og ofskreytt rjómaterta að innan, þ.e.a.s. fyrir utan uppdubbaðar beinagrindurnar sem eru hluti af skreytingunum. Hvet ykkur til að gúgla staðinn.Read more

 • Day60

  Bamberg, Þýskalandi, 18. maí

  May 18, 2017 in Germany ⋅ ⛅ 25 °C

  Í dag var svipað heitt og í gær, en ég klæddi mig eftir veðri, smurði á mig sólarvörn, passaði mig að vera alltaf með eitthvað til að drekka við hendina, og gekk h-æ-g-t, enda er ég bara hress eftir daginn.

  Það er margt að sjá í Bamberg. Ég skoðaði dómkirkjuna að innan og utan og kíkti á rósagarðinn sem er hluti af byggingu sem nefnist "nýja setrið" og var aðsetur biskupa borgarinnar til forna. Rósirnar voru bara rétt að byrja að mynda knúppa, en garðurinn er eflaust mjög fallegur þegar þær eru í blóma. Útsýnið yfir bæinn ofan úr garðinum er hins vegar stórkostlegt á öllum árstímum.

  Ég rölti síðan um og skoðaði hús og kirkjur að utan, og stakk mér inn í áhugaverðar litlar búðir í gamla bænum, s.s. leirílátaverslun og bakstursáhaldabúð.

  Fékk mér Bamberger-bakkelsi í kaffinu, og er nú nýlokin við að drekka rauchbier, sem er sérstakur dökkur bjór sem er bruggaður hérna og lyktar af reyk.
  Read more

 • Day59

  Bug, Þýskalandi, 17. maí

  May 17, 2017 in Germany ⋅ ☀️ 24 °C

  Ég fann heimilisfang tjaldstæðisins sem ég er á í 10 ára gamalli ferðahandbók. Það er svo fastgróið að það hefur sitt eigið strætóstopp, og geri aðrir betur.

  Bug er lítið þorp í útjaðrinum á Bamberg. Það tekur um 15-20 mín. að komast frá tjaldstæðinu inn í miðbæ Bamberg, sem ætti að segja ykkur hversu stór Bamberg er.

  Bamberg er merkilegur staður. Hún slapp alveg við sprengjuregn í stríðinu og fyrir bragðið er hún ein best varðveitta miðaldaborg Þýskalands og komst þannig inn á heimsminjaskrá UNESCO. Þarna eru m.a. hátt í 1000 ára gamlar byggingar.

  Ég kom þangað síðdegis og skoðaði mig aðeins um, en flúði loks til baka á tjaldstæðið vegna hita. Hann fór hátt í 30 °C, sem var aðeins of heitt fyrir mig í þeim fötum sem ég var í.
  Read more

 • Day59

  Sanspareil, Þýskalandi, 17. maí

  May 17, 2017 in Germany ⋅ ☀️ 23 °C

  Ég ók í gegnum Frankishe Schweiz á leiðinni til Bamberg, og kom þar við í Felsengarten Sanspareil, sem mætti þýða sem "steinagarðurinn óviðjafnanlegi".
  Ég ók í gegnum hæðótt, skógi vaxið landslag til að komast þangað, með litlum þorpum sem minntu mann á Alpana. Ég vildi gjarnan geta sýnt myndir, en það var hvergi hægt að stoppa nema í innkeyrslum hjá þorpsbúunum.
  Sanspareil var útbúinn, á 18. öld, sem óvenjulegur lystigarður. Stígar voru lagðir á milli stórbrotinna, sorfinna sandsteinskletta og byggt var á sumum klettunum, eða við þá, til að segja sögu úr rómversku goðafræðinni. Væntanlega þarf maður sögumann með sér til að skilja táknin, en það er engu að síður gaman að ganga þetta einn og lesa söguna af skiltum.
  Garðurinn er í raun villtur skógur með þessum klettum sem hefur verið föndrað við og er yndislegur staður að koma á og eyða 1-2 tímum í að ráfa um og njóta kyrrðar og náttúrufegurðar, og helmingurinn af nautninni er að komast þangað.
  Read more

 • Day58

  Safnadagurinn mikli

  May 16, 2017 in Germany ⋅ ⛅ 17 °C

  Ég var mætt í miðborgina á slaginu tíu og komin upp í Zwinger korter yfir, rétt til að heyra í klukknaspili byggingarinnar. Ég held að bjöllurnar séu úr postulíni!

  Skoðaði einstakt postulínssafn, heillandi safn gamalla mælitækja sem flest eru líka skrautmunir, og síðast en ekki síst Alte Meister málverkasafnið.

  Að þessu loknu snæddi ég síðbúinn hádegisverð, sór þess eið að snúa aftur og skoða Dresden, Meißen og Saxneska Sviss almennilega (gefa mér svona viku), og lagði af stað til Bamberg.

  Er nú við Störmthaler See, vatn sem er svo smátt að það er ekki á neinu af kortunum mínum, og verð hér í nótt.

  Steikti mér pönnsur áðan, ætlaði að gera það á afmælinu í gær, en aðstæður buðu ekki upp á það. Hér var hins vegar logn, þannig að ég gat athafnað mig úti við.
  Read more

Never miss updates of Þangað og heim aftur with our app:

FindPenguins for iOS FindPenguins for Android