Satellite
Show on map
  • Day 67

    Riquewihr

    May 25, 2017 in France ⋅ ⛅ 21 °C

    Ég labbaði í bæinn í morgun. Tjaldstæðið er hinum megin við þjóðveginn og séð þaðan er Riquewihr svo til ósýnileg. Maður heldur að þetta sé kirkja og tvö hús, en hún er svolítið stærri en það. Ég segi "hún" því vinnufélagi hinn upplýsti mig um að Riquewhir hafi borgarréttindi þrátt fyrir að vera í raun pínulítið þorp.

    Hvað um það - ég labbaði af stað og var bara komin inn í bæinn allt í einu. Gamli bærinn er eins og klipptur út úr stereótýpu af Frakklandi og er hreinræktuð, en mjög sjarmerandi, túristagildra, full af litríkum bindingsverkshúsum og múrhúðuðum steinhúsum með gluggahlerum og blómapottum upp um alla veggi, og göturnar eru steinlagðar.

    Hér eru vínstofur og vínkjallarar (fr. cave) á hverju strái, veitingastaðir sem eru allir með meira og minna sama matseðilinn, og alls konar verslanir, þ.á.m. jólabúð og nornabúð - ekki galdrabúð, heldur er hægt að kaupa sér alls konar nornabrúður þar, allar brosandi og með krókanef og vörtur. Í einum af bæjunum sem ég ætla að skoða á morgun er reyndar nornasafn, þannig að sennilega hefur eitthvað gengið á hér í nornaveiðum til forna.

    Tók hring um bæinn og fékk mér svo laukböku og hvítvínsglas. Pantaði næstum alla máltíðina á frönsku og er mjög stolt af sjálfri mér.

    Mér finnst Frakkarnir reyndar leggja sig mikið meira fram um að skilja mann og að gera sig skiljanlega en Þjóðverjarnir, og þvert á það sem mér hafði verið sagt þá svissa þeir hiklaust yfir í ensku eða þýsku ef þeir sjá að maður skilur ekki eitthvað. En ég hef auðvitað bara átt samskipti við fólk í ferðaþjónustu og á veitingastöðum hingað til.

    Hér eru nokkur skemmtileg skilti sem ég sá í bænum.
    Read more