Á ferð og flugi um landið.
Message
 • Day4

  Tálknafjörður

  June 22 in Iceland ⋅ ⛅ 11 °C

  Ég er nú stödd á Tálknafirði og ætla að vera hér í nótt. Það hætti að rigna seint í gærkvöldi, en það var kalt og næðingur á Patreksfirði í morgun þegar ég fór á fætur. Sem betur fer er eldunaraðstaða og matsalur á tjaldsvæðinu, þannig að ég gat eldað mér súpu í kvöldmatinn í gær, og borðað morgunmatinn inni í hlýjunni í morgun. Þarna var asísk fjölskylda þegar ég kom inn og pabbinn var að elda, fyrst morgunmat og svo nesti fyrir daginn, og ilmurinn af matnum var þannig að nú langar mig í thailenskan eða kínverskan mat. Fæ kannski svalað þeirri löngun á Ísafirði.
  Eftir sundsprett í lauginni ók ég út á Rauðasand og labbaði um í fjörunni fyrir neðan Melanes, í blessuðu sólskini. Ég sá að það var þoka/lágskýjað úti á Látrabjargi, svo ég sleppti því að fara þangað og ók í staðinn hingað á Tálknafjörð. Hér eru sólarglennur og ca. 10 °C hiti, og ég er búin að vera að leika mér á ærslabelgnum við sundlaugina.
  Read more

 • Day3

  Flókalundur - Patreksfjörður

  June 21 in Iceland ⋅ 🌧 7 °C

  Ég fór með Baldri yfir Breiðafjörðinn síðdegis í gær í fallegu en svölu veðri, og gisti í Flókalundi í nótt. Þar er lítið og notalegt tjaldsvæði fyrir ofan hótelið.

  Í gærkvöldi byrjaði svo að rigna, en þó ekki fyrr en ég var búin að fá mér ærlega gönguferð niður að sjó og meðfram ströndinni. Nota bene: ekki láta Google Maps leiðsegja ykkur að Hellulaug - það fer með ykkur sundlauginni í orlofshúsahverfinu þarna rétt hjá. Hellulaugin er hins vegar innar með firðinum.

  Í morgun var svo ausandi rigning, en ég er ekki frá því að það sé heldur hlýrra en í gær. Á svona dögum vil ég halda mig innan dyra og hafa það notalegt, þannig að ég tók mig saman og ók niður að hóteli og fékk mér morgunmat þar og horfði á rigninguna út um gluggann. Þau bjóða upp á fínasta hlaðborð með alls konar góðgæti - meira að segja nýsteiktar vöfflur.

  Ég ók síðan til Patreksfjarðar og er nýkomin úr sundi þar. Það er eitthvað alveg sérstakt við að liggja í leti í heita pottinum á meðan rigningin baðar á manni hausinn. Á það ekki einmitt að vera svo hollt fyrir hárið að þvo það upp úr rigningarvatni?

  Svo skrapp ég á Bíldudal í rigningunni og kíkti á skrímslasafnið.
  Read more

 • Day2

  Stykkishólmur

  June 20 in Iceland ⋅ ☀️ 8 °C

  Hér er veður með fallegra móti, en vindur frekar kaldur. Þó gat ég verið á bolnum í kringum hádegið. Er búin að taka rúntinn um bæinn, fara í sund, versla á handverksmarkaðnum, ganga upp í Súgandisey og borða fiskisúpu á Narfeyrarstofu. Bíð nú eftir að Baldur láti úr höfn.
  1. Þessi litla vík er fyrir neðan kirkjuna og gefur góð tækifæri til myndatöku.
  2. Kirkjan minnir mig á dreka frá þessu sjónarhorni.
  3. Höfnin og Súgandisey.
  4. Stuðlaberg.
  5. Vitinn í eyjunni.
  6. Ginið á Baldri.
  Read more

 • Day2

  Grundarfjörður, sunnudagur

  June 20 in Iceland ⋅ ⛅ 7 °C

  Fór í minn venjulega labbitúr um staðinn í morgunsvalanum. Hér er ýmislegt að sjá:
  1. Máni og Kirkjufellið.
  2. Fjallasýn.
  3. Vegglistaverk.
  4. Mjallhvít og dvergarnir.
  5. Nokkur af nöfnum vindsins. Þessi upptalning er hluti af bekk sem byrjar í logni og endar með ósköpum.Read more

 • Day1

  Grundarfjörður

  June 19 in Iceland ⋅ ☀️ 5 °C

  Lagði af stað í lítið sumarfrí í morgun. Er nú stödd á Grundarfirði, en til gamans má geta þess að þar gisti ég fyrstu nóttina mína í húsbílnum vorið 2015, í frosti. Það er ólíklegt að það verði næturfrost þessa nótt, en það er samt ekki beinlínis hlýtt. Ég fékk þó sól í dag og á tímabili fór hitastigið upp í heilar 10 °C og ég gat verið á bolnum.
  Hér minnir fjarlægt jarm mann á að það er stutt í sveitina.
  Á morgun á ég svo pantað far með Baldri yfir Breiðafjörð. Því miður er spáð rigningu, en það er þó skömminni skárra að vera á siglingu í henni en á akstri eftir Barðaströndinni.
  Read more

 • Day10

  Restin af ferðinni...

  August 6, 2020 in Iceland ⋅ ⛅ 12 °C

  Ég ók beint til Egilsstaða frá Stöðvarfirði, og eins og a.m.k. tvisvar sinnum áður keyrði ég inn í mun betra veður þegar ég kom niður af Fagradal. Það entist hins vegar ekki lengi: ég ók yfir Hellisheiði eystri í dimmri þokusúld og roki, og í svipuðu veðri áfram til Þórshafnar, þar sem ég eyddi nóttinni.
  Það sást aðeins til sólar um kvöldið, en morguninn eftir var lágskýjað og þungbúið og ég nennti ekki að bíða til að sjá hvort það mundi létta til og því tók ég stefnuna á Húsavík. Auðvitað var svo hið besta veður þar, sól og hlýtt. Þetta var þriðja misheppnaða tilraunin mín til að skoða mig um á Langanesi og Melrakkasléttu.
  Veðrið batnaði eftir því sem vestar dró, og á Akureyri var c.a. 15°C hiti og sól.
  Ég var komin á Harrastaði - ættaróðal fjölskyldunnar - um fjögur, og var þar 2 nætur í rólegheitum með foreldrunum, og hélt svo heim á leið.
  Read more

 • Day3

  Kaffihorniđ, Höfn í Hornafirði

  July 30, 2020 in Iceland ⋅ ☀️ 12 °C

  Pantaði mér pulled pork pizzu. Hún var falleg og bragðgóð, en það er eitthvað mikið að þegar það er meiri ostur en brauð í pizzunni...
  Mér var orðið illilega óglatt af öllum ostinum þegar ég var rétt hálfnuð með hana, svo ég kláraði af henni kjötið og leyfði afganginum, enda búin að fá vikuskammt af osti í einni máltíð.Read more

 • Day3

  Jökulsýn - jökullón

  July 30, 2020 in Iceland ⋅ ☀️ 10 °C

  1. Ég þarf einhverntímann að keyra hringinn réttsælis - maður sér mikið betur upp á jökulinn þegar komið er úr þeirri áttinni. Ég gerði krók á leið mína til að geta virt jökulinn almennilega fyrir mér.
  2. Jökulsárlón er alltaf jafn fallegt. Mikill munur að vera þar tiltölulega snemma dags.
  Read more

Join us:

FindPenguins for iOSFindPenguins for Android