• Vika til stefnu

    August 21, 2019 in Iceland ⋅ ☁️ 11 °C

    Jæja, þá fer að styttast í næsta ævintýri. Þegar maður á svona ferðabíl er um að gera að nota hann, ekki satt? Ég var ekki fyrr komin heim frá Evrópu í hittífyrra en ég byrjaði að skipuleggja aðra stóra ferð. Í fyrstu sótti hugurinn til Frakklands og ég var að hugsa um að skoða mig um í Normandí og Bretagne, en einhvern tímann í fyrra ákvað ég að ég væri spenntari fyrir Ítalíu. Ferðaáætlunin er búin að vera í mótun síðan þá og má eiginlega segja að hún sé það enn þá.

    Ég legg af stað austur á Seyðisfjörð á mánudaginn kemur (26. ágúst) og verð sennilega á Akureyri fyrstu nóttina. Á þriðjudeginum er ætlunin að dóla mér í rólegheitunum austur á bóginn, fara etv. í jarðböðin við Mývatn og eyða seinni nóttinni á Egilsstöðum. Ferjan siglir ekki fyrr en kl. átta um kvöldið, þannig að ég fer kannski bara í göngu upp að Háafossi – það var svo gaman að fara þangað síðast að ég væri alveg til í að skoða hann aftur. Heimsæki svo kannski vinnufélagana á Seyðisfirði á miðvikudeginum.
    Read more