• Þangað og heim aftur
  • Þangað og heim aftur

Ítalía 2019

Flakkferð um norður Ítalíu í september 2019. Read more
  • Trip start
    August 26, 2019

    Vika til stefnu

    August 21, 2019 in Iceland ⋅ ☁️ 11 °C

    Jæja, þá fer að styttast í næsta ævintýri. Þegar maður á svona ferðabíl er um að gera að nota hann, ekki satt? Ég var ekki fyrr komin heim frá Evrópu í hittífyrra en ég byrjaði að skipuleggja aðra stóra ferð. Í fyrstu sótti hugurinn til Frakklands og ég var að hugsa um að skoða mig um í Normandí og Bretagne, en einhvern tímann í fyrra ákvað ég að ég væri spenntari fyrir Ítalíu. Ferðaáætlunin er búin að vera í mótun síðan þá og má eiginlega segja að hún sé það enn þá.

    Ég legg af stað austur á Seyðisfjörð á mánudaginn kemur (26. ágúst) og verð sennilega á Akureyri fyrstu nóttina. Á þriðjudeginum er ætlunin að dóla mér í rólegheitunum austur á bóginn, fara etv. í jarðböðin við Mývatn og eyða seinni nóttinni á Egilsstöðum. Ferjan siglir ekki fyrr en kl. átta um kvöldið, þannig að ég fer kannski bara í göngu upp að Háafossi – það var svo gaman að fara þangað síðast að ég væri alveg til í að skoða hann aftur. Heimsæki svo kannski vinnufélagana á Seyðisfirði á miðvikudeginum.
    Read more

  • Hugsanleg leið

    August 21, 2019 in Iceland ⋅ ☁️ 12 °C

    Hér er kort af hugsanlegri leið - þetta er bara til gamans gert og ekki ætlað sem föst ferðaáætlun. Það er öruggt að fyrsti staðurinn þar sem ég gisti á Ítalíu er Bolzano, og þangað ætla ég að vera komin ekki seinna en 4. september, því ég er búin að mæla mér þar mót við foreldra mína.Read more

  • Fyrstu dagarnir í ferðinni

    August 22, 2019 in Iceland ⋅ ⛅ 11 °C

    …munu aðallega fara í akstur. Fyrst þarf ég að koma mér austur á Seyðisfjörð og ætla að taka í það tvo daga, skoða mig smávegis um og heimsækja fólk á leiðinni, t.d. á Sauðárkróki og Seyðisfirði og etv. Akureyri. Legg af stað á mánudagsmorguninn. Geri ráð fyrir að gista fyrri nóttina á Akureyri og þá seinni á Egilsstöðum.

    Kl 18:00 á miðvikudaginn fer ég í innritunarröðina fyrir Norrænu og kl. 20:00 á skipið að sigla.

    Svo taka við u.þ.b. 2 ½ rólegheitadagar um borð, með einu smá hléi þegar skipið leggst að bryggju í Þórshöfn í Færeyjum. Það er lítið annað að gera um borð en að sofa, lesa og vinna handavinnu - ef maður er ekki í stuði til að hanga á barnum eða leika sér í spilakössum - og ég verð því vel hvíld fyrir aksturinn til Ítalíu. Ég ætla nefnilega ekkert að túristast í Danmörku og lítið í Þýskalandi og Austurríki, heldur brenna nokkurn veginn beinustu leið til Bolzano.
    Read more

  • Áætlunin fyrstu dagana í Evrópu

    August 22, 2019 in Iceland ⋅ ⛅ 11 °C

    Norræna á að leggjast að bryggju í Hirtshals í Danmörku um 10:00 að morgni 31. ágúst. Ég kemst í fyrsta lagi út úr skipinu um 11:00, sennilega nær 12:00, því fólksbílarnir frá Íslandi fara síðastir frá borði. Þá skal haldið út á hraðbraut E39 og ekið til Álaborgar, þar inn á E45 sem síðan verður að A7 við þýsku landamærin. Á henni verð ég svo þar til ég kem að austurrísku landamærunum.

    Það fer svo eftir því hversu seint ég er á ferðinni og hversu hress ég er hvort ég stoppa og gisti í Flensborg eða held áfram og verð í Hamborg eða einhvers staðar þar á milli. Lengra en til Hamborgar ætla ég a.m.k. ekki þann daginn.

    Næsta dagleið, ef allt gengur að óskum, verður Hamborg til Rothenburg ab der Tauber, og síðan Rothenburg til Garmisch-Partenkirchen, og loks þaðan til Bolzano. Ef þetta gengur eftir verð ég komin þangað 3. september.

    Ég er búin að reikna út að með ca. 5-6 klukkustunda dagleiðum eftir hraðbrautinni komist ég þangað í síðasta lagi 4. september - þann 3. ef vel gengur. Via Michelin-vefsíðan – sem ég mæli með fram yfir Google Maps til skipulagningar á akstursleiðum – segir mér að við bestu aðstæður (hámarkskraði alla leið, engar tafir, gott veður) eigi að taka 14 ½ klst að keyra stystu/fljótlegustu leið á milli Hirtshals og Bolzano - um 1540 km - en bestu aðstæður eru bara aldrei til staðar og það er betra að áætla varlega.

    Svo ætla ég heldur ekki stystu leið – það er tiltekinn fjallvegur sem mig langar að taka frá Austurríki til Ítalíu og hann er bæði hlykkjóttur og seinfarinn, ekki síst vegna þess að maður er víst alltaf að stoppa til að dást að útsýninu: Timmelsjoch/SS444Bis: https://www.dangerousroads.org/europe/austria/3…
    Read more

  • Lögð af stað

    August 26, 2019 in Iceland ⋅ 🌧 11 °C

    Mér finnst voða notalegt að stoppa í Geirakaffi í Borgarnesi ef ég er þar á kaffitíma. Útsýnið er að vísu ekkert spes í dag, en kaffið og ástarpungarnir standa fyrir sínu.

  • Komin í næturstað

    August 26, 2019 in Iceland ⋅ ⛅ 14 °C

    Fékk ca. kortérs sólskin á Akureyri.
    Fór í klippingu - þurfti að fara á 5 stofur til að fá klippingu. Á þremur dömuhárgreiðslustofum var lokað (og klukkan bara rúmlega þrjú) og rakarastofan var að fara að loka, en þær björguðu mér á Amber. Þarf nú ekki að hafa áhyggjur af að greiða mér næstu vikurnar.Read more

  • Morgunverður á Bláu könnunni

    August 27, 2019 in Iceland ⋅ ⛅ 11 °C

    Sko, ég ætlaði bara að borða hrökkbrauð með hnetusmjöri í morgunmat, en svo fór ég í sund út á Akureyri og var svo svöng á eftir að ég sogaðist hérna inn og var búin að panta mér morgunverðardisk áður en ég vissi af.
    That's my story, and I'm sticking to it.
    Read more

  • Seyðisfjörður

    August 28, 2019 in Iceland ⋅ ⛅ 10 °C

    Hér er 18 °C hiti og bærinn fullur af fólki - ekki bara af Norrænu, heldur er líka skemmtiferðaskip inni á firðinum.
    Myndir:
    1. Sigling.
    2. Norræna, skemmtiferðaskipið, einn gamall.
    3. Farartæki: mitt, gamalt flak, fornbíll, hótel á hjólum.
    4. Svipmyndir úr bænum.
    5. Köttur. Þessi er handa Ástu Kristínu.
    6. Falleg veggmynd og myndin sem var á sama vegg 2017.
    Read more

  • Torshavn

    August 29, 2019 in Faroe Islands ⋅ 🌧 11 °C

    Hér er ekki hundi út sigandi fyrir rigningu. Náði að taka nokkrar myndir áður en ég gafst upp og flúði upp í skip.
    1. Eins og sjá má er hér Sirkus, rétt eins og á Seyðisfirði.
    2. Flott vegglistaverk.
    3. Hér eru greinilega kosningar í nánd.
    Read more

  • Ef maður er með nesti...

    August 29, 2019 in Faroe Islands ⋅ 🌧 10 °C

    ..um borð í Norrænu verður maður annað hvort að éta það inni í klefa í óþökk herbergisfélaganna, kaupa sér kaffi í The Diner og laumupokast með nestið úti í horni þar sem afgreiðslufólkið sér ekki til, eða éta það úti á þilfari. Hér er reyndar þak, og annar endinn er lokaður, en hinn endinn er opinn út og það getur orðið kalt. Læt mig samt hafa það.

    P.s. Get innilega mælt með rúllupylsunni frá Kjøtbúðinni. Hún er vel krydduð og smakkast eins og heimatilbúin.
    Read more

  • Danmörk nálgast

    August 30, 2019, Skagerrak ⋅ ☁️ 18 °C

    Það var úfinn sjór og hvassviðri sem tók við þegar skipið yfirgaf landgrunn Færeyja, og það versnaði eftir því sem leið á daginn. Undir kvöld var varla stætt uppi á dekki og skipið valt og hjó ölduna. Giska á 3-4 metra ölduhæð.
    A.m.k. 3 af klefafélögum mínum voru sjóveikar.
    Og ég? Mér leiddist. Tíminn leið ofurhægt og ég lullaði á milli staða í skipinu, las á einum, teiknaði á öðrum og heklaði á þeim þriðja.
    Read more

  • Strand

    August 31, 2019 in Denmark ⋅ ⛅ 21 °C

    Dagurinn byrjaði vel: ég var sloppin frá borði um ellefu og brenndi beint út á hraðbraut. Áfangastaður: Hamborg.
    Stoppaði aðeins í Bilka í útjaðri Árósa og var svo nýkomin út á hraðbrautina aftur þegar bíllinn fór að missa afl og svokallað glóðarperuljós birtist í mælaborðinu. Ég skellti neyðarljósunum á og vék út á vegaröxl og hökti út af hraðbrautinni á meðan bíllinn hægði sífellt á sér og gangurinn í honum var eins og í trillu eða gamalli dráttarvél. Sat svo úti í vegarkanti í 26 °C hita og hringdi eftir hjálp.
    FÍB gat ekkert hjálpað mér - þau eru ekki með gagnkvæman samning við samsvarandi samtök í DK. Ég ber því ein allan kostnað af dráttarbílnum, sem er um 20 þúsund.
    Dráttarbílstjórinn og maður á VW-verkstæðinu þangað sem bíllinn var dreginn voru mér sammála um að þetta væru sennilega spíssarnir. Vona bara að það verði hægt að laga þetta strax á mánudaginn svo ég geti haldið áfram för.
    Ég er nú á hóteli í miðborg Árósa, og vitiði hvað: það var að byrja bæjarhátíð hérna.
    Read more

  • Sunnudagur í Árósum

    September 1, 2019 in Denmark ⋅ ⛅ 18 °C

    Ég byrjaði daginn á kaffi og croissant á kaffihúsi í Bruuns-verslunarmiðstöðinni sem er í næsta húsi við hótelið. Eyddi svo morgninum í ráp og innkaup. Eftir hádegismatinn tæklaði ég svo Aros - listasafn borgarinnar. Þar eru ýmssar sýningar og innsetningar í gangi. Hér er smá sýnishorn.
    Það var mjög gaman að koma inn í regnbogalistsverk Ólafs Elíassonar sem trónir efst á byggingunni, en ég held að "Drengur" eftir Ron Mueck sé kannski það áhrifamesta. Speglainnsetningin var mjög skemmtileg.
    Read more

  • Ég held það megi alveg fullyrða...

    September 2, 2019 in Denmark ⋅ ☀️ 15 °C

    ...að þetta er orðið dýrasta ferðalag sem ég hef farið í og borgað sjálf. Bilunin var í spíss nr. 2 og viðgerðin kostar rétt tæp 190 þúsund.
    Góðu fréttirnar eru að ég fæ bílinn í fyrramálið. Vonast því til að komast til Ítalíu 5. eða 6. september.Read more

  • Inger

    September 2, 2019 in Denmark ⋅ ⛅ 13 °C

    Eftir fréttirnar af bílnum var ég í svolitlu sjokki og fór og ráfaði stefnulaust um miðbæinn. Settist svo niður fyrir utan Salling-stórverslunina og heyrði einhvern hávaða fyrir ofan mig og leit upp. Það er s.s. brúarstubbur með glerbotni uppi á þaki hússins, og þar uppi voru krakkar að fíflast og taka myndir.

    Allt í einu er ég ávörpuð og það er gömul, ömmuleg kona, örugglega á tíræðusaldri, sem spyr hvort ég hafi komið þarna upp, og þegar ég segi svo ekki vera vill hún endilega sýna mér og dró mig með sér þarna upp. Við settumst svo inn á kaffihúsið sem er þarna uppi og drukkum kaffi (ég) og kakó með þeyttum rjóma (hún) og spjölluðum saman í dágóða stund.

    Útsýnið ofan af þakinu er ekki síðra en ofan af Aros, og það kostar ekkert að fara þarna upp.

    Leiðir skildi svo niðri á götu og það var mun léttara yfir mér eftir þetta. Kærar þakkir, Inger.
    Read more

  • Dagleiðin hjá mér...

    September 3, 2019 in Germany ⋅ ⛅ 18 °C

    ...varð 720 km. Gpx-skráin segir það styttra, en það er út af skráningarmátanum.

    Þetta var þrátt fyrir brjálæðislega rigningu á köflum og umferðartafir á fjórum stöðum. Á móti kom að á nokkrum löngum köflum var glettilega lítil umferð og það hélst þurrt eftir þrjú, svo maður gat gefið rækilega í. Bíllinn stendur sig vel og er búinn að fá nafn: Máni. Gef ykkur eitt tækifæri til að giska á hvaðan það er komið...

    Ég er komin til Hann. Munden í Fulda-dal, sem er sennilega skakkasti bær sem ég hef komið til, og jafnframt einn af þeim fallegri. Mikið af húsunum er frá 15. eða 16. öld, og þau eru sum hver bæði sigin, hallandi og undin, sbr. mynd nr. 1.
    Read more