Satellite
Show on map
  • Day 38

    Djursland og Mols

    October 2, 2019 in Denmark ⋅ ⛅ 9 °C

    Ég fór út á Djursland og keyrði þar hringinn í dag. Var sérstaklega hrifin af hæðóttu landslaginu í Mols Bjerge-þjóðgarðinum. Hitti þar íslenska hesta, og naut góðs veðurs um stund, og svo fór að rigna og ég tók stefnuna á Álaborg. Lenti þar í hremmingum.

    Fyrst þurfti ég að keyra, eða öllu heldur silast, í gegnum miðbæinn um fjögurleitið, til að komast á tjaldstæðið sem GPS-tækið vísaði mér á. Kom að byggingarsvæði þar sem það átti að vera. Síðan aftur inn í miðbæ, þar sem umferðin hafði heldur þyngst. Það tók mig 45 mínútur að keyra 1,6 km! Held ég kvarti aldrei aftur yfir umferðinni í Reykjavík.

    Vitiði hvað? Þetta tjaldsvæði var líka orðið að byggingarlóð.

    Síðan ók ég 30 km, á tjaldstæði... sem var lokað. En sem betur fer var annað í nágrenninu og það var opið, þó ég þyrfti reyndar að hringja í umsjónarmanninn til að láta hleypa mér inn. Þetta stæði lokar á laugardaginn kemur, þannig að ég var heppin.

    En, það er hérna í bænum tvennt sem ég hef hug á að skoða á morgun, þannig að kannski var mér ætlað að flækjast hingað.
    Read more