Satellite
Show on map
  • Day 19

    Saint-Brieuc - Paimpol - Le Pertre

    June 2, 2023 in France ⋅ ☀️ 22 °C

    Ég ók til Saint-Brieuc síðdegis sama dag og ég var í Mont Saint-Michel, og gisti þar á tjaldsvæði í litlu dalverpi inni í bænum. Bíllinn var skítugur fyrir, en hann skánaði ekki að vera lagt í skugga trjáa sem voru full af dúfum og svartþröstum. Það varð því mitt fyrsta verk þegar ég fór af tjaldsvæðinu morguninn eftir að finna bílaþvottastöð og setja Kadda í þrifabað. Það náðist næstum því allt af honum, nema nokkrar klessur sem hljóta að hafa komið úr mávarössum.

    Ók svo til Paimpol. Sá bær er enn þann dag í dag þekktur fyrir útgerð, en í gamla daga var hann þekktastur sem bærinn þaðan sem Íslandsskipin svokölluðu voru gerð út. Einn forfaðir minn var sjómaður á slíku skipi og beið skipbrot við Ísland og skildi eftir barn þegar hann fór heim aftur. Því miður reyndist sjóferðasafnið vera lokað vegna breytinga, svo ég skoðaði mig um í miðbænum og brenndi svo til Rennes.

    Þar lenti ég í klassísku tjaldsvæðaveseni: það fyrsta fannst ekki og nr 2 og 3 voru lokuð og ekki hræðu að sjá. Ég hafði neyðst til að skrá mig í klúbb til að fá aðgang að húsbílasvæðinu í Beauvoir og fór inn á vefsíðuna hjá honum, vitandi að stæðin sem hann veitir aðgang að eru opin allan sólarhringinn. Fann eitt og keyrði um 120 km til að komast á það. Sem betur fer var það bæði skuggsælt og rólegt, því það var vel heitt í gær og ég var með hálfgert mígreni þegar ég komst þangað.
    Read more