• Þangað og heim aftur
May – Jun 2023

Frakkland 2023

Akstursferðalag frá Íslandi til Danmerkur, Þýskalands, Hollands, Belgíu og Frakklands. Read more
  • Trip start
    May 15, 2023

    Formáli að ferðalagi

    May 4, 2023 in Iceland ⋅ ☁️ 4 °C

    Þá fer að líða að því: ég er loksins að komast í þriðja langa ferðalagið til Evrópu á litla húsbílnum mínum. Það stóð til að ég færi í svona ferð 2021, en sem betur fer var ég ekki búin að panta mér farið með Norrænu þegar Covid19-faraldurinn skall á.

    Þá stóð til að taka allt sumarfríið og keyra til Ítalíu og taka ferju til Korsíku og þaðan til Sardiníu og svo Sikileyjar og því næst Möltu og til baka til Ítalíu og keyra svo upp Ítalíuskagann með viðkomu á Capri. Þegar svo til kom og ég pantaði mér farið í janúar á þessu ár ákvað ég að taka bara rúmlega 4 vikna frí, sem er heldur stutt fyrir þá ferð. Því dustaði ég rykið af pælingu um að heimsækja heimaslóðir fransks forföður míns sem kom frá útgerðarbænum Paimpol í Bretaníu, og skoða í leiðinni minjar frá innrásinni í Normandí. Þetta er talsvert minni akstur, og þar af leiðandi styttri dagleiðir og í staðinn fyrir að byrja á því að keyra þvert niður Evrópu til að byrja ævintýrið verð ég farin að skoða mig um á öðrum degi eftir komuna til meginlandsins.

    Eins og í tveimur fyrri ferðunum ákvað ég að skoða staði sem eru á heimsminjaskrá UNESCO, og skipulagði leiðina til Paimpol með það í huga. Áætlunin er að keyra frá Hirtshals (DK) til Neðra-Saxlands (DE) fyrsta daginn og keyra út að strönd og fylgja vesturströnd Evrópu að miklu leiti til Paimpol, sjá svo til hvenær ég næ þangað og halda áfram til Carnac ef ég hef nægan tíma. Síðan mundi ég, hvor staðurinn sem verður endapunktur á suðurleiðinni, snúa við og keyra til baka innar í landi.

    Ef ég fer alla leið til Carnac, þá næ ég að merkja við þrjá staði (annars bara tvo) sem eru á „þetta verð ég að sjá“ listanum mínum, þ.e. Mont Saint-Michel, kumlin og bautasteinana í Carnac, og frægan handsaumaðan refil sem er til sýnis í Bayeux og sýnir aðdragandann að innrás Vilhjálms sigursæla í England árið 1066 og orrustuna við Hastings. Ef ég verð mjög fljót til Mont Saint-Michel, þá bregð ég mér kannski í dagsferð til Ermasundseyjarinnar Jersey.

    Meðfylgjandi mynd sýnir hugsanlega leið, með möguleikum og útúrdúrum.

    Eins og í fyrri ferðum er ykkur boðið að fylgjast með ferðalaginu. Ég veit ekki hvað ég gef mér mikinn tíma til að skrifa, en ég ætla a.m.k. að setja inn myndir úr ferðalaginu með smá texta.

    Athugið að ef þið viljið skrifa athugasemdir, þá getið þið það án þess að vera skráð hjá FindPenguins, en þá þarf að skrifa sérstaklega undir til að ég viti hver skrifar.
    Read more

  • Mér líst ekkert á þessa veðurspá!

    May 12, 2023 in Iceland ⋅ ☁️ 8 °C

    Það er útlit fyrir að áætlun mín um að fara af stað til Seyðisfjarðar á mánudaginn og fara norðurleiðina sé ekki alveg að fara að gera sig. Suðurleiðin er skárri, en samt ekkert sérstaklega spennandi. Ég sé til hvernig spáin verður í fyrramálið og fer kannski af stað þá eða á sunnudaginn.Read more

  • Fall er fararheill...

    May 14, 2023 in Iceland ⋅ 🌬 5 °C

    Það byrjar vel, eða þannig: ég læsti mig úti þegar ég var að fara síðustu ferðina út í bíl. Þá kom sér vel að vera með lyklahús með varalykli. Hins vegar langar mig að vita hvernig það komst kónguló inn í það - það var nefnilega vefur inni í lyklahúsinu.Read more

  • Komin í næturstað á Höfn

    May 14, 2023 in Iceland ⋅ ☁️ 8 °C

    Það er bálhvasst under Vatnajökli, og þó það sé 6° C hiti, þá flögra hér snjókorn. Var smá óheppin og ræsti rangt GPS app og fattaði það ekki strax og því byrjar kortið af leiðinni ekki í Þorlákshöfn, heldur við Eyjafjöll.Read more

  • Komin á Egilsstaði

    May 15, 2023 in Iceland ⋅ ❄️ -1 °C

    Gisti á Höfn í Hornafirði síðustu nótt og ók svo til Egilsstaðar, fyrst í slyddu og svo í hríð. Tók útpælda ákvörðun og skrölti yfir Öxi og stytti þannig leiðina um ca 100 km. Var búin að gleyma hvað þessi vegur er djö. brattur! Færðin var í lagi, fyrir utan stuttan kafla þar sem var smá slabbhálka, og svo er vegurinn auðvitað hroðalega holóttur. Kaddinn var illa skítugur þegar ég kom niður af Öxi, en það skolaði af honum að mæta nokkrum flutningabílum sem jusu yfir hann vatni. Þetta er í fyrsta skipti sem ég verð fegin að mæta stórum bílum í votviðri.Read more

  • Egilsstaðir

    May 16, 2023 in Iceland ⋅ ☀️ 2 °C

    Ég verð að segja að ég hef átt betri afmælisdaga, en sá í gær var þó ekki alslæmur. Það var bara svolítið kalt og lítið að gera annað en að rúnta á milli verslana og skoða sig um.
    Í nótt var svo frost og ég svaf undir sæng og tveimur teppum, í flísnáttfötum og lopasokkum, með hitablásara í gangi og símann og lesbrettið uppí hjá mér til að fyrirbyggja frostskemmdir.
    Í morgum var svo komin glampandi sól og hitastigið komið upp fyrir núllið. Ég er mjög fegin að sundlaugin hérna opnar kl hálf sjö - það eru góðir heitir pottar með öflugu nuddi, og fín sána.
    Er nú á rúntinum og tók meðfylgjandi mynd handa pabba, sem er sérlegur áhugamaður um dráttarvélar.
    Read more

  • Seyðisfjörður

    May 17, 2023 in Iceland ⋅ ☀️ 8 °C

    Maður getur ekki kvartað mikið yfir veðrinu í dag: 16 °C hiti og sól. Það verður gaman að standa úti á þilfari og horfa á fjöllin þegar Norræna siglir í kvöld. Heimsótti vinnufélaga mína og þáði hjá þeim kaffi og er nú á rúntinum að skoða bæinn.

    Myndin sýnir ferðafélaga minn, hana Bjöllu, og blómlegt mælaborðið í bílnum. Set kannski inn fleiri myndir þegar líður á daginn.
    Read more

  • Norræna

    May 17, 2023 in Iceland ⋅ ☁️ 10 °C

    Komin um borð. Frábært að vera ein í klefa og þurfa ekki að deila klósetti með öðrum.

    Klefarnir eru merktir fiskum. Ég hefði alveg getað hugsað mér að vera Grænlandshákarl eða gaddaskata, en ónei, ég lenti á fiski sem ég hef aldrei heyrt á minnst: löngu laxsíld. Vona að hann sé a.m.k. góður til átu.Read more

  • Allt í grænum sjó

    May 18, 2023 in Faroe Islands ⋅ 🌬 10 °C

    Norræna siglir nú í svolitlum öldugangi og þoku í áttina til Færeyja (hún verður komin að landi þegar ég hleð þessu upp). Það er ýmislegt breytt um borð frá því síðast.

    T.d. hefur skipið verið hækkað og það er kominn glæsilegur bar með útsýni í 3 áttir framarlega á skipinu, uppi á 10. þilfari, og notalegi þilfarsbarinn á 6. (eða var það 7.?) þilfari, þessi með sóðalega skýlinu þar sem var svo gott að fara til að borða nestið sitt, er farinn. Eini staðurinn þar sem maður virðist geta étið mat sem er ekki keyptur um borð (annars, staðar en inni í klefa) virðist vera setsvæði undir berum himni, sem er fínt í góðu veðri en afleitt í roki og/eða rigningu.

    Inni í kaffiteríunni og á barnum á 5. þilfari eru svo komnar bókahillur með úrvali af bókum á færeysku, dönsku, ensku, íslensku og þýsku (kannski fleiri tungumálum).

    Ég minntist á fiskaþemað á ganginum "mínum" í síðustu færslu, en það er fuglaþema á einum af hinum göngunum.
    Read more

  • Komin í land

    May 20, 2023 in Germany ⋅ ⛅ 13 °C

    Þá er ævintýrið hafið. Norræna lagðist að bryggju í Hirtshals kl. 11, og ég var komin í land fyrir tólf. Ók svo með nokkrum stoppum til Þýskalands. Þetta verður sennilega lengsti akstursdagurinn í ferðinni, rúmir 500 km, nánast allt á hraðbrautum frá Hirtshals til Schleswig, og þaðan á þjóðvegum.

    Ferðalagi dagsins lauk í þorpinu Kollmar á bökkum Saxelfar. Þar fann ég friðsælt tjaldsvæði til að eyða fyrstu nóttinni á meginlandinu.

    Fleiri myndir þegar ég kemst í frítt netsamband.
    Read more

  • Aschenbeck

    May 21, 2023 in Germany ⋅ ☁️ 24 °C

    Tók þessu frekar rólega og keyrði ekki langt í dag. Beið í um klukkutíma eftir ferju yfir Saxelfi í hádeginu og þegar ég kom til Aldinborgar var ég svo til búin á því - það er nefnilega vel heitt og sól og ég er byrjuð að sólbrenna. Var því komin í næturstað upp úr fjögur. Sýnist verðin vera svipuð og 2019.

    1. Með svona ferjukríli fór ég yfir Saxelfi.
    2. Smá tilbreyting frá akstrinum.
    3. Á tjaldsvæðinu.
    Read more

  • Gröningen, Hollandi

    May 22, 2023 in the Netherlands ⋅ ☀️ 21 °C

    Ég vaknaði um sjö í morgun við regndropahljóð á þakinu, sem fljótlega breyttist í stanslaust rennsli, og svo komu þrumur. Dreif mig af stað upp úr níu - þá var enn þá rigning, en þrumurnar hættar.

    Stoppaði í Aldinborg og kíkti í MediaMarkt - þar var útsala mikil og ég fékk loksins ferðaprentarakríli í staðinn fyrir þann gamla, sem gaf upp öndina í síðasta ferðalagi. Get nú farið að líma myndir í ferðadagbókina.

    Fór svo til Gröningen í Hollandi, með smá útúrdúr: GPS-tækið reyndi að senda mig á eitthvað heimilisfang með "Groningen" í nafninu... í Dortmund. Var sem betur fer fljót að átta mig á því og gefa fyrirmæli í rétta átt.

    Ætlaði að skoða mig um í miðbænum þegar til Gröningen kom, en var orðin þreytt og treysti mér ekki til að valta ekki óvart yfir eitthvað af öllu hjólreiðafólkinu sem þarna rúllar um (vita hjálmlaust), svo ég tók strauið út úr bænum og kom mér á tjaldsvæði.
    Read more

  • Noord-Scharwoude, í útjaðri Alkmaar

    May 23, 2023 in the Netherlands ⋅ ☀️ 12 °C

    Í dag er ég búin að skoða ýmislegt.

    Fyrst var það skakki turninn í Leeuwarden (Oldehove, mynd nr. 4). Mig svimaði þegar ég sá hann, en ég held að það hafi kannski verið eftirstöðvar af sjóriðunni sem hefur hrjáð mig frá því ég kom í land. Miðbærinn þarna er mjög skemmtilegur, með gömlum húsum, skurðum og skemmtilegum búðum.

    Svo var það Eiese Eisinga Planetarium í Franeker (myndir 1 og 2), stórmerkilegt sólkerfislíkan og dagatal, hið elsta í heimi sem enn þá virkar - byggingu þess lauk 1781. Eisinga, sem var ullarkaupmaður að atvinnu, dundaði sér við þetta í frístundum og var að í 7 ár. Gangverkið er úr trétannhjólum og það er drifið áfram af lóðum. Það er staðsett í sjarmerandi gömlu húsi frá 15. öld (mynd 3). Mynd 5 er líka frá Franeker og sýnir götuna þar sem safnið er staðsett.

    Svo ók ég yfir Afsluitsdijk, langan varnargarð sem tengir saman héröðin Norður-Holland og Frísland.

    Mynd 6 er frá Enkhuizen. Mér fannst skemmtilegt að sjá þetta gamla skakka hús klesst á mili tveggja kirkna.

    Svo flæktist ég alveg óvart inn á Beemster-sælandið, þ.e. land sem var áður sjávarbotn en var þurrkað upp (nóg af svoleiðis á þessum slóðum) og rúntaði þar um og rakst á gamlar vindmyllur. Gat því miður ekki stoppað til að taka mynd.

    Mynd 7 er tekin á tjaldsvæðinu, sem er það flottasta hingað til. Hér er hægt að gista á hóteli, í smáhýsum, í lúxustjöldum ("glamping"), eða eigin tjaldi, draghýsi eða húsbíl. Svo er bæði bar og veitingahús.
    Read more

  • Kinderdijk

    May 24, 2023 in the Netherlands ⋅ ☁️ 16 °C

    Mitt helsta afrek í dag var að heimsækja Kinderdijk. Þar eru varðveittar gamlar vindmyllur sem voru notaðar til að dæla vatni og þurrka upp land á Kinderdijk-Elshout-svæðinu austan við Rotterdam.

    Myllurnar eru miðpunktur menningarlandsvæðis sem þykir það merkilegt að það er skráð á heimsminjaskrá UNESCO. Svæðið er öllum opið og það kostar ekkert að ganga þarna um, en það er bara hægt að fara inn í þær 2 myllur sem eru söfn, í siglingu um síkin og fleira ef maður borgar sig inn.

    Hljóðin innandyra eru eins og maður mundi ímynda sér að sé um borð í gömlu seglskipi: marr í timbri og hvinur í seglum og gólfin nötra þegar armarnir snúast.

    Það var gaman að skoða þetta, og ekki síst að fá að vita að það er búið í 16 af 19 myllum! Mæli hiklaust með að gera ykkur ferð til að skoða þetta ef þið eruð í Amsterdam eða Rotterdam - það er víst hægt að taka síkjastrætó frá báðum borgum.

    Meiri upplýsingar: https://whc.unesco.org/en/list/818/

    Í öðrum fréttum má nefna að lokunarbúnaðurinn í báðum rennihurðunum á bílnum er bilaður, sem þýðir að ég kemst bara aftur í með því að halla og renna farþegasætinu fram og klifra, svona eins og í tveggja dyra bílunum í gamla daga. Gæti notað afturdyrnar, en það er ekki hægt að loka þeim innan frá. Ég borgaði 200 þúsund í viðgerð í síðustu ferð, en þetta verður vonandi innan við 100 þúsund kr.
    Read more

  • Bíllinn í viðgerð

    May 25, 2023 in the Netherlands ⋅ ☀️ 11 °C

    Ég sendi neyðarkall á næsta Volkswagen-verkstæði (tölvupóstur kl 2 að nóttu til) og var boðið að koma með Kaddann í skoðun. Ég sat svo og dundaði mér við að færa dagbók og prufukeyra litla prentarann sem ég keypti um daginn, á meðan gert var við bílinn. Þetta urðu um 440 evrur.

    Ég komst svo loksins á stað um hádegið og ók til Brugge, skoðaði fallegan gamlan miðbæinn þar og ók svo áleiðis til Ostende. Er nú á húsbílastæði í Middelkerke og ætla að vera þar 2 nætur. Fékk fast stæði, sem þýðir að ég get komið og farið að vild, og ætla að fara til Tournai og Lille á morgun, og kannski líka Dunkirk.
    Read more

  • Middelkerke

    May 26, 2023 in Belgium ⋅ 🌬 13 °C

    Jæja, bíllinn er ekki hættur að vera til vandræða. Ég var leggja af stað í leiðangurinn til Tournai og Lille um ellefuleytið þegar nágranni minn á húsbílastæðinu kom hjólandi upp að hliðinni að bílnum og benti mér á að það væri sprungið á afturdekkinu farþegamegin. Ég þakkaði honum fyrir - ég fann ekki fyrir neinu, þó ég hefði eflaust fundið það um leið og ég kom út á götu og jók hraðann.

    Ég var sem betur fer með litla en öfluga rafknúna hjólapumpu í bílnum og gat dælt nægilega í dekkið til að ég komst á næsta verkstæði. Fjandans dekkið var auðvitað ónýtt, og ég keypti því ný afturdekk undir Kadda. Það urðu um 220 evrur.

    Fór svo til Tournai og skoðaði hina stórmerkilegu Frúarkirkju borgarinnar (myndir 1-3) og frístandandi klukkuturn (mynd 4) í nágrenninu; bæði eru á heimsminjaskrá UNESCO.

    Svo rakst ég inn í Saint-Quentin-kirkjuna sem stendur við aðaltorgið. Þar var einhver að æfa sig á stærðarinnar pípuorgel, þannig að ég fékk smá tónleika.

    Lauk svo leiðangrinum með verslunarleiðangri í Westfield-kringluna í Lille - það leka af mér kílóin þessa dagana og mig vantaði eitthvað sem passar á mig og hentar veðrinu hérna.
    Read more

  • Dunkerque-Calais

    May 27, 2023 in France ⋅ ☀️ 14 °C

    Þetta er viðburðaríkasti dagurinn hingað til - og allt gott: hæfilegt veður, þ.e. 🌞 og um 20 °C hiti með svalri hafgolu. Er komin á tjaldsvæði kennt við sandlóu (le grand gravelot).

    Ég ákvað að taka því rólega og rúntaði fyrsta áfangann meðfram ströndinni í stað þess að keyra þjóðvegi og hraðbrautir - var orðin þreytt á að sjá ekkert nema bíla, trjágróður og steypu.

    Fyrsta stopp var á stríðsminjasafninu í Dunkerque (mynd 3). Það er tileinkað flótta breska hersins þaðan, sem hófst 26. maí 1940. Það hefði verið gaman að vera þar í gær, jafnvel þó það hafi ekki verið stórafmæli.

    Síðan fór ég til Calais, og villtist því miður út á hraðbraut, en það gerði mér þó kleift að heimsækja, án þess að þurfa að gera það á sprettinum, Cité de la Dentelle et de la Mode. Það er safn tileinkað blúndu- og knipplingagerð og tengdri tísku og er með flottari handverks- og fatasöfnum sem ég hef komið á. (myndir 4 og 5).

    Loks uppgötvaði ég að sumartíminn er að hefjast í Calais, þ.e. ferðamannatímabilið hófst opinberlega í dag og var ræst af stað með stórkostlegri sýningu fjöllistahópsins Gratte Ciel, TAWA, sem samanstendur af tónlistarflutningi, söng, dansi, fimleikum og loftfimleikum (mynd 6). Alveg hreint stórkostlegt, og ég sveif heim á tjaldsvæði á marglitu vellíðunarskýi og það án þess að skynörvandi efni hafi komið til. Mér finnst að það ætti að fá þennan hóp á listahátíð í Reykjavík!

    Myndir 1 og 2 eru frá ströndinni í Calais. Þetta er það næsta sem ég hef komist sjónum í ferðinni.
    Read more

  • Calais - Boulogne-sur-Mer

    May 29, 2023 in France ⋅ 🌬 13 °C

    Ég hóf ferðalag dagsins í því að kíkja á ráðhúsið í Calais. Turninn á því er á heimsminjaskrá. Ráðhúsið er mun reisulegra en það í Reykjavík, en er líka svolítið óraunverulegt, eins og það sé byggt úr Legokubbum.

    Ég komst svo loksins út í náttúruna í alvöru gönguferð. Ég ók meðfram svokallaðri Ópalströnd í dag (kennd við mjúka, merlandi birtuna þar, sem listmálarar dýrka) og stoppaði við Blanc-Nez-höfða og gekk meðfram honum, niður að ströndinni og upp í gegnum smábæinn Escalles, ca. 5 km, í fínasta gönguveðri: sólskini og svölum vindi utan af Ermarsundi.

    Síðan ók ég til Boulogne-sur-Mer og heimsótti sjávar- og sædýrasafnið Nausicaa, sem er eitt það stærsta í Evrópu. Það kostar talsvert inn, en er vel þess virði ef maður hefur áhuga á sjávarlífverum og málefnum hafsins.
    Read more

  • Boulogne-sur-Mer - Bayeux

    May 30, 2023 in France ⋅ 🌬 12 °C

    Það er lítið um daginn í dag að segja, annað en að hann fór í ferðalög. Ég ók meira enn 400 km í dag, talsvert á hraðbrautum, en líka á þjóðvegum og sveitavegum. Er búin að sjá helling af fallegu landslagi í dag og aka yfir nokkrar risabrýr, þ.á m. hina stórfenglegu Point de Normandie sem spannar Signu nálægt mynni hennar, á milli Le Havre og Honfleur.

    Er komin til Bayeux og ætla að skoða Bayeux-refilinn fræga á morgun, og hugsanlega safn tileinkað innrásinni í Normandie.
    Read more

  • Bayeux - Beauvoir

    May 31, 2023 in France ⋅ ☀️ 23 °C

    Heimsótti í dag 2 söfn, sem bæði snúast um stríð, en á gjörólíkan hátt. Bayeux-refillinn segir söguna af orrustunni við Hastings árið 1066 og aðdraganda hennar. Handverkið á honum er snilldarlegt og hann er í einu orði sagt listaverk. Engar myndir, því ljósmyndun er bönnuð inni á safninu.

    Svo fór ég á safn tileinkað innrásinni í Normandí. Hún hófst í maí 1944 og því hafa ýmsir viðburðir og athafnir henni tengd verið haldnir undanfarið og eru framundan. Ég hitti á þar sem breskir kadettar voru að leggja valmúasveiga við minnismerki við safnið. Ég skoðaði svo safnið og það er s.s. ekki mikið um það að segja annað en að það er stórt og ítarlega er sagt frá innrásinni.

    Loks kíkti ég á stærsta breska hermannagrafreitinn í Normandí. Maður kemst ekki hjá því að klökkna við að sjá alla þessa legsteina, ekki síst þegar maður les á þá og sér að flestir þeir sem þarna eru grafnir voru innan við þrítugt. Sorglegt.

    Ók svo til Beauvoir. Á morgun skoða ég Mont Saint-Michel.
    Read more

  • Mont Saint-Michel

    June 1, 2023 in France ⋅ 🌙 14 °C

    Fyrir svo löngu síðan að ég geri mér ekki grein fyrir hvenær, sá ég, í einhverri kvikmynd, þríhyrningslaga virkisborg með kirkju með háum turni, úti á eyju sem tengd var landi með löngu eiði. Hún leit út eins og hilling úti á sjónum og ég ákvað að einhvern tímann mundi ég heimsækja þennan stað. Hér eru nokkrar myndir frá heimsókninni.

    Nú á ég bara eftir að heimsækja Saint Michael's Mount í Kornbretalandi, sem er svipaður staður, þó hann sé ekki eins tilkomumikill.
    Read more

  • Saint-Brieuc - Paimpol - Le Pertre

    June 2, 2023 in France ⋅ ☀️ 22 °C

    Ég ók til Saint-Brieuc síðdegis sama dag og ég var í Mont Saint-Michel, og gisti þar á tjaldsvæði í litlu dalverpi inni í bænum. Bíllinn var skítugur fyrir, en hann skánaði ekki að vera lagt í skugga trjáa sem voru full af dúfum og svartþröstum. Það varð því mitt fyrsta verk þegar ég fór af tjaldsvæðinu morguninn eftir að finna bílaþvottastöð og setja Kadda í þrifabað. Það náðist næstum því allt af honum, nema nokkrar klessur sem hljóta að hafa komið úr mávarössum.

    Ók svo til Paimpol. Sá bær er enn þann dag í dag þekktur fyrir útgerð, en í gamla daga var hann þekktastur sem bærinn þaðan sem Íslandsskipin svokölluðu voru gerð út. Einn forfaðir minn var sjómaður á slíku skipi og beið skipbrot við Ísland og skildi eftir barn þegar hann fór heim aftur. Því miður reyndist sjóferðasafnið vera lokað vegna breytinga, svo ég skoðaði mig um í miðbænum og brenndi svo til Rennes.

    Þar lenti ég í klassísku tjaldsvæðaveseni: það fyrsta fannst ekki og nr 2 og 3 voru lokuð og ekki hræðu að sjá. Ég hafði neyðst til að skrá mig í klúbb til að fá aðgang að húsbílasvæðinu í Beauvoir og fór inn á vefsíðuna hjá honum, vitandi að stæðin sem hann veitir aðgang að eru opin allan sólarhringinn. Fann eitt og keyrði um 120 km til að komast á það. Sem betur fer var það bæði skuggsælt og rólegt, því það var vel heitt í gær og ég var með hálfgert mígreni þegar ég komst þangað.
    Read more

  • Nemours

    June 3, 2023 in France ⋅ ☀️ 25 °C

    Dagurinn fór í akstur. Er nú komin til Nemours, stutt frá Fontainebleau. Er á húsbílasvæði niðri við á. Bærinn er ekkert smá fallegur!

    Það er 28 °C hiti og ég ligg eins og skata inni í bíl með opið út og reyni að hreyfa mig sem minnst. Langar helst að stinga mér í ána til að kæla mig niður. Verst að það eru ekki sturtur á þessu stæði, sem þýðir blautþurrkubað í fyrramálið.

    Hér virðist vera siður þegar fólk giftir sig að brúðhjónunum er fylgt eftir af bílalest þegar þau aka af stað í brúðkaupsferðina, með blikkandi ljósum og flautuna í botni. Varð vör við a.m.k. 4 brúðkaup og þar af leiðandi mikinn hávaða og umferðarteppu þegar ég fór í miðbæinn til að skoða mig um.
    Read more

  • Fontainebleau

    June 4, 2023 in France ⋅ ☀️ 24 °C

    Í dag fór ég og skoðaði Fontainebleau, fyrrum aðsetur franskra konunga og keisara. Hún minnir mig um margt á Hampton Court-höll í Englandi, s.s. að því leyti að þetta er algert völundarhús, þarna eru híbýli frá mörgum tímabilum og sagan spannar aldir og marga konunga og drottningar, nokkra Napoleóna og a.m.k. einn páfa. Vel þess virði að gera sér dagsferð frá París, og hún er ekki eins vinsæl og Versalir, sem þýðir minni troðningur og færra fólk.

    Ég hitti svo á að það var listahátíð í gangi, sem fjallaði annars vegar um Belgíu og hins vegar um veðurfar í list, en þar sem fyrirlestrarnir voru á frönsku gagnaðist það mér lítið. Hins vegar var ókeypis inn í tilefni hátíðarinnar og opið inn í málverkagallerí sem oftast nær er lokað almenningi. Svo voru ungir leiðsögumenn að segja fólki frá hinu og þessu og ég græddi á því. Mjög góð heimsókn.
    Read more

  • Provins - Champagne

    June 4, 2023 in France ⋅ 🌙 18 °C

    Frá Fontainebleau fór ég til Provins, bæjar sem er þekktur fyrir vel varðveitt virki og hús frá miðöldum, svo mjög að hann fór á heimsminjaskrá 2001. Það var álíka djöfullega heitt í dag og í gær, en það bjargaði miklu að það var nægur vindur til að maður var ekki alveg að stikna úti við.

    Fann mér svo notalegt tjaldsvæði í Dormans í Marne-dalnum, innan um vínekrur. Keyri kannski Kampavínsveginn á morgun. Verst að geta ekki komið við og smakkað - mig langar alveg í kampavínssmökkun en langar hinsvegar ekkert til að láta taka mig fyrir ölvunarakstur😉
    Read more