Satellite
Show on map
  • Day 32

    Vaglaskógur

    June 15, 2023 in Iceland ⋅ ☁️ 14 °C

    ,, Allt er þegar þrennt er" segir máltækið. Mikið innilega vona ég að það sé rétt, því að í dag var Kaddi á verkstæði í þriðja skiptið í ferðinni.

    Á leiðinni niður Fjarðarheiðina upphófust skruðningar, ískur og skraphljóð undir bílnum, nánar tiltekið hægra afturhjóli. Mig grunaði að handbremsan væri etv. föst út í diskinn, því bíllinn var í handbremsu í siglingunni frá Danmörku og handbremsur eru oft svo lítið notaðar á sjálfskiptum bílum að þær eiga það til að festast séu þær loksins notaðar.

    Fór með hann á verkstæði á Egilsstöðum og fékk þá greiningu að bremsuklossinn væri svo til búinn. Ekki gott mál með 700 km eftir af ferðalaginu, og þeir gátu ekki tekið hann inn vegna anna. Sama var uppi á teningnum á næsta verkstæði, en þeir bentu mér á verkstæði í Fellabæ og þar var hægt að koma Kadda að samdægurs.

    Kaddi fékk svo nýja bremsuklossa og á meðan sötraði ég kaffi og las inni á Bókakaffinu á Hlöðum. Get mælt með kaffinu þar, og líka andrúmsloftinu. Ég er nú komin í Vaglaskóg og er þar við hliðina á mömmu minni og pabba.
    Read more