Satellite
Show on map
  • Day 30

    Það er skrítin tilfinning...

    April 18, 2017 in Iceland ⋅ ⛅ 4 °C

    ...að vera að pakka niður fyrir svona langt ferðalag og þurfa ekki að hugsa um að halda þyngdinni og fyrirferðinni á farangrinum undir 23 kg í einni tösku. Auðvitað er ákveðið hámark til staðar – ég er með tiltekið pláss sem ég get notað undir rúminu, í skúffunum í innréttingunni og í holrúminu á bak við sætin, en það er langtum stærra en þessi venjulega ferðataska, og svo getur bíllinn tekið rúmlega 700 kg farm, sem er mun meira en ég þarf, jafnvel þegar tekið er tillit til þyngdarinnar á innréttingunni.

    Myndirnar sýna það pláss sem ég hef undir rúminu.

    Vanalega þegar ég fer í ferðalög til útlanda reyni ég að halda farangrinum í lágmarki, og reyndar er það svo að því lengri sem ferðin er, því minni farangur tek ég með mér, helst þannig að ég get tekið allt með mér í handfarangri.

    Þegar ferðalagið er styttra en 2 vikur nenni ég nefnilega ekki að standa í því að þvo þvott og tek því með mér föt til skiptanna fyrir allan tímann, en á lengra ferðalagi geri ég ráð fyrir að þvo af mér og get því tekið með mér minna af fötum.

    Nú er ég í þeirri stöðu að geta tekið með mér meira af fötum en ég mundi venjulega gera í svona langt ferðalag, en þarf jafnframt að geta þvegið þau saman, því ég hef ekki ætlað mér að vera með föt fyrir alla ferðina án þvotta. Þau mundu nefnilega taka all of mikið pláss. Sem betur fer verð ég í gistingu á tjaldstæðum og á þeim flestum eru þvottavélar, þannig að ég þarf ekki einu sinni að hafa áhyggjur af því að ég sé að missa af einhverju, sitjandi inni á almenningsþvottahúsi og haldandi vörð um fötin, heldur get ég þvegið þegar ég kem í næturstað og nýtt biðtímann í að fá mér að borða eða skipuleggja næsta dag. Ég vona bara að ég lendi ekki í vandræðum ef það verður leitað í bílnum hjá mér á leiðinni í eða úr landi, því hvítt duft í litlum poka gæti vakið grunsemdir...
    Read more