• Dresden, Germany

    May 15, 2017 in Germany ⋅ ⛅ 17 °C

    Þegar ég gerði áætlunina fyrir daginn í dag gleymdi ég að mánudagar eru hefðbundnir lokunardagar fyrir söfn, og öll söfnin í Zwinger-byggingunni voru því lokuð. Hvað um það, ég heimsæki bara postulínssafnið í fyrramálið og ef ég verð innan við tvo tíma að skoða það, ætla ég líka á Alte Meister málverkasafnið.

    Ég fór á labbið í staðinn fyrir að skoða söfn og blandaði saman skoðunarferð um Altstadt og verslunarleiðangri. Ég fann loksins buxur í staðinn fyrir þessar sem eru orðnar of stórar á mig, fékk mér ferskan aspas í hádegismatinn (hann er alls staðar til sölu, en fá veitingahús bjóða upp á hann), skoðaði hinar og þessar byggingar að utan og leit inn í Frauenkirche, en þar stóð yfir guðsþjónusta, svo ég stoppaði ekki lengi.

    Ég íhugaði að fara í siglingu á Saxelfi, en sú sem ég hafði mestan áhuga á var hátt í fjögurra tíma löng, og leiðsögnin á þýsku.

    Veðrið var frábært, pínkulítið of heitt yfir hádaginn, en þegar leið á daginn kom svalur vindur sem kældi mann niður.

    Allt í allt verð ég að segja að þetta var hinn ágætasti afmælisdagur.
    Read more