Satellite
Show on map
  • Day 68

    Strasbourg

    May 26, 2017 in France ⋅ ☀️ 26 °C

    Það var hátt í 30° C hiti þegar ég kom til Strasbourg um hádegisleitið og þegar þetta er skrifað, í Speyer í Þýskalandi kl. 19:30, eru 27° C, þannig að þið getið ímyndað ykkur hvað það var gaman að vera úti í þessu. Ég bíð eftir að það komi þrumuveður og kæli loftið.

    Ég labbaði inn á Place de la Cathédrale, sem er einn af miðpunktum gamla bæjarins, horfði á langa, fjórfalda röðina sem hlykkjaðist inn um einar dyr á dómkirkjunni og út um aðrar og hugsaði með mér "nei, ég þrái ekki af nógu mikilli örvæntingu að sjá inn í kirkjuna til að standa í þessu".

    Svo settist ég inn á veitingahús og pantaði mér Tarte Flambée Traditionelle, sem er nokkurs konar pizza, bara með sýrðum rjóma í stað tómatsósu, og áleggið er laukur og skinka. Bara frekar gott. Labbaði svo niður í bíl í gegnum Petite France-hverfið og lagði af stað til Þýskalands.

    Strasbourg getur beðið betri tíma. T.d. væri ég alveg til í vetrarheimsókn þangað þegar hitastigið er þolanlegt og mannþröngin ekki eins mikil.
    Read more