Satellite
Show on map
  • Day 12

    Bolzano og áfram

    September 6, 2019 in Italy ⋅ 🌧 17 °C

    Ég náði til Bolzano í hádeginu í gær og villtist bara einu sinni í leit minni að hótelinu sem mamma og pabbi voru á. Það er lítið, einkarekið, og notalegt, og ég gat lagt, með herkjum og hjálp, fyrir utan. Veðrið var dásamlegt, sól og hæfilega heitt, um 24 °C. Fór með mömmu og pabba í labbitúr og við fengum okkur pikknikk-hádegismat í litlum almenningsgarði. Höfðum það svo notalegt það sem eftir lifði dags.

    Leiðir skildi svo í morgun - þau lögðu af stað til Bled í Slóveníu og ég varð eftir í Bolzano. Fór í miðbæinn, sem er fallegur og sjarmerandi, og var komin í röð fyrir utan Fornminjasafn Suður-Týról 5 mínútum fyrir opnun. Skoðaði sýningu um ísmanninn svokallaða, Ötsi. Ég skora á þá sem ekki þekkja til að kynna sér hann - hann er stórmerkilegur. (Mynd 1).

    Það var rigning þegar ég fór inn á safnið kl. 10, og það var meiri rigning þegar ég kom út um hálf-tólf. Ég ákvað því að yfirgefa staðinn og skipaði GPS-tækinu að leiðsegja mér til Verona. Ók í ausandi rigningu um helming leiðarinnar, í gegnum stórkostlegt alpalandslag (það sem ég sá af því fyrir súld/þoku).

    Fyrst voru tré til beggja handa, en svo þegar neðar dró ók ég eftir sveitavegum á milli stórra aldingarða þar sem aðallega virtust ræktuð epli, og í gegnum pínulítil þorp. (Mynd 2)

    Svo tók við blandaður landbúnaður, þ.á m. vínekrur; það stytti svo upp og ég kom neðar, í meira þéttbýli; og loks tóku við iðnaðar- og verslunarhverfi og þá var komið þrumuveður í fjarska og aftur orðið rigningarlegt.

    Ég kom mér á tjaldstæði í einu úthverfi Verona rétt áður en það fór aftur að rigna. Ætla svo að skoða veðurspá áður en ég ákveð hvort ég fer í austur eða vestur á morgun. Er lítið spennt fyrir Feneyjum í rigningu, en get vel skoðað söfn í Mílanó þó það mígrigni.
    Read more