Satellite
Show on map
  • Day 33

    Komin til gömlu góðu Danmerkur

    September 27, 2019 in Denmark ⋅ 🌧 13 °C

    Er á leiðinni út á Rømø, með viðkomu í Flensborg til að fara í húsbílabúð. Það er nefnilega þannig að ef maður vill hafa klósett í bílnum, þá þarf efni í það til að koma í veg fyrir lykt, og svo þarf sérstakan klósettpappír sem leysist upp í trefjar, og mig vantaði bæði. Ætlaði fyrst að fara beint upp með austurströnd Danmerkur, en ákvað svo að skoða Rømø og Esbjerg. Sé síðan til, en væri til í að keyra svo til austurs og skoða mig um á Djurslandi og Mols, en þangað hef ég ekki komið áður. Mér áskotnaðist dásemdarinnar kort yfir ýmislegt sem er að sjá í Danaveldi, og það er úr mörgu að velja (sjá mynd).

    Hvað Rømø varðar hef alltaf haft gaman af að stúdera baðstrandarbæi utan við sumarleyfistímann. Sumir eru bara litlausir og dauðyflislegir, aðrir minna á næturklúbb eftir lokun en áður en hreingerningafólkið mætir og einn og einn minnir á aldraða heldri frú sem hefur séð sitt fegursta en heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það verður gaman að sjá hvernig staðan er á Rømø.
    Read more