Satellite
Show on map
  • Day 13

    Dunkerque-Calais

    May 27, 2023 in France ⋅ ☀️ 14 °C

    Þetta er viðburðaríkasti dagurinn hingað til - og allt gott: hæfilegt veður, þ.e. 🌞 og um 20 °C hiti með svalri hafgolu. Er komin á tjaldsvæði kennt við sandlóu (le grand gravelot).

    Ég ákvað að taka því rólega og rúntaði fyrsta áfangann meðfram ströndinni í stað þess að keyra þjóðvegi og hraðbrautir - var orðin þreytt á að sjá ekkert nema bíla, trjágróður og steypu.

    Fyrsta stopp var á stríðsminjasafninu í Dunkerque (mynd 3). Það er tileinkað flótta breska hersins þaðan, sem hófst 26. maí 1940. Það hefði verið gaman að vera þar í gær, jafnvel þó það hafi ekki verið stórafmæli.

    Síðan fór ég til Calais, og villtist því miður út á hraðbraut, en það gerði mér þó kleift að heimsækja, án þess að þurfa að gera það á sprettinum, Cité de la Dentelle et de la Mode. Það er safn tileinkað blúndu- og knipplingagerð og tengdri tísku og er með flottari handverks- og fatasöfnum sem ég hef komið á. (myndir 4 og 5).

    Loks uppgötvaði ég að sumartíminn er að hefjast í Calais, þ.e. ferðamannatímabilið hófst opinberlega í dag og var ræst af stað með stórkostlegri sýningu fjöllistahópsins Gratte Ciel, TAWA, sem samanstendur af tónlistarflutningi, söng, dansi, fimleikum og loftfimleikum (mynd 6). Alveg hreint stórkostlegt, og ég sveif heim á tjaldsvæði á marglitu vellíðunarskýi og það án þess að skynörvandi efni hafi komið til. Mér finnst að það ætti að fá þennan hóp á listahátíð í Reykjavík!

    Myndir 1 og 2 eru frá ströndinni í Calais. Þetta er það næsta sem ég hef komist sjónum í ferðinni.
    Read more