Vestfirðir

June 2021
Sumarfrí á Íslandi. Ákvað að kanna Vestfirðina. Read more
  • 5footprints
  • 1countries
  • 8days
  • 20photos
  • 0videos
  • 2.4kkilometers
  • Day 1

    Grundarfjörður

    June 19, 2021 in Iceland ⋅ ☀️ 5 °C

    Lagði af stað í lítið sumarfrí í morgun. Er nú stödd á Grundarfirði, en til gamans má geta þess að þar gisti ég fyrstu nóttina mína í húsbílnum vorið 2015, í frosti. Það er ólíklegt að það verði næturfrost þessa nótt, en það er samt ekki beinlínis hlýtt. Ég fékk þó sól í dag og á tímabili fór hitastigið upp í heilar 10 °C og ég gat verið á bolnum.
    Hér minnir fjarlægt jarm mann á að það er stutt í sveitina.
    Á morgun á ég svo pantað far með Baldri yfir Breiðafjörð. Því miður er spáð rigningu, en það er þó skömminni skárra að vera á siglingu í henni en á akstri eftir Barðaströndinni.
    Read more

  • Day 2

    Grundarfjörður, sunnudagur

    June 20, 2021 in Iceland ⋅ ⛅ 7 °C

    Fór í minn venjulega labbitúr um staðinn í morgunsvalanum. Hér er ýmislegt að sjá:
    1. Máni og Kirkjufellið.
    2. Fjallasýn.
    3. Vegglistaverk.
    4. Mjallhvít og dvergarnir.
    5. Nokkur af nöfnum vindsins. Þessi upptalning er hluti af bekk sem byrjar í logni og endar með ósköpum.Read more

  • Day 2

    Stykkishólmur

    June 20, 2021 in Iceland ⋅ ☀️ 8 °C

    Hér er veður með fallegra móti, en vindur frekar kaldur. Þó gat ég verið á bolnum í kringum hádegið. Er búin að taka rúntinn um bæinn, fara í sund, versla á handverksmarkaðnum, ganga upp í Súgandisey og borða fiskisúpu á Narfeyrarstofu. Bíð nú eftir að Baldur láti úr höfn.
    1. Þessi litla vík er fyrir neðan kirkjuna og gefur góð tækifæri til myndatöku.
    2. Kirkjan minnir mig á dreka frá þessu sjónarhorni.
    3. Höfnin og Súgandisey.
    4. Stuðlaberg.
    5. Vitinn í eyjunni.
    6. Ginið á Baldri.
    Read more

  • Day 3

    Flókalundur - Patreksfjörður

    June 21, 2021 in Iceland ⋅ 🌧 7 °C

    Ég fór með Baldri yfir Breiðafjörðinn síðdegis í gær í fallegu en svölu veðri, og gisti í Flókalundi í nótt. Þar er lítið og notalegt tjaldsvæði fyrir ofan hótelið.

    Í gærkvöldi byrjaði svo að rigna, en þó ekki fyrr en ég var búin að fá mér ærlega gönguferð niður að sjó og meðfram ströndinni. Nota bene: ekki láta Google Maps leiðsegja ykkur að Hellulaug - það fer með ykkur sundlauginni í orlofshúsahverfinu þarna rétt hjá. Hellulaugin er hins vegar innar með firðinum.

    Í morgun var svo ausandi rigning, en ég er ekki frá því að það sé heldur hlýrra en í gær. Á svona dögum vil ég halda mig innan dyra og hafa það notalegt, þannig að ég tók mig saman og ók niður að hóteli og fékk mér morgunmat þar og horfði á rigninguna út um gluggann. Þau bjóða upp á fínasta hlaðborð með alls konar góðgæti - meira að segja nýsteiktar vöfflur.

    Ég ók síðan til Patreksfjarðar og er nýkomin úr sundi þar. Það er eitthvað alveg sérstakt við að liggja í leti í heita pottinum á meðan rigningin baðar á manni hausinn. Á það ekki einmitt að vera svo hollt fyrir hárið að þvo það upp úr rigningarvatni?

    Svo skrapp ég á Bíldudal í rigningunni og kíkti á skrímslasafnið.
    Read more

  • Day 4

    Tálknafjörður

    June 22, 2021 in Iceland ⋅ ⛅ 11 °C

    Ég er nú stödd á Tálknafirði og ætla að vera hér í nótt. Það hætti að rigna seint í gærkvöldi, en það var kalt og næðingur á Patreksfirði í morgun þegar ég fór á fætur. Sem betur fer er eldunaraðstaða og matsalur á tjaldsvæðinu, þannig að ég gat eldað mér súpu í kvöldmatinn í gær, og borðað morgunmatinn inni í hlýjunni í morgun. Þarna var asísk fjölskylda þegar ég kom inn og pabbinn var að elda, fyrst morgunmat og svo nesti fyrir daginn, og ilmurinn af matnum var þannig að nú langar mig í thailenskan eða kínverskan mat. Fæ kannski svalað þeirri löngun á Ísafirði.
    Eftir sundsprett í lauginni ók ég út á Rauðasand og labbaði um í fjörunni fyrir neðan Melanes, í blessuðu sólskini. Ég sá að það var þoka/lágskýjað úti á Látrabjargi, svo ég sleppti því að fara þangað og ók í staðinn hingað á Tálknafjörð. Hér eru sólarglennur og ca. 10 °C hiti, og ég er búin að vera að leika mér á ærslabelgnum við sundlaugina.
    Read more