Satellite
Show on map
  • Day 39

    Spennan eykst

    April 27, 2017 in Iceland ⋅ ⛅ 7 °C

    Jæja, þá er innan við vika til brottfarar, og titringurinn er að byrja. Ég er yfirleitt pollróleg dagana fyrir ferðalög og tek síðan út spenninginn með svefnleysi nóttina fyrir brottför, en núna er svo margt sem ég þarf að huga að sem ég hef ekki þurft að huga að áður, að ég er bara orðin pínu stressuð.

    Er ég með alla pappíra sem tengjast bílnum? (já)
    Er bíllinn í lagi? (svo segja þeir hjá Heklu)
    Er ég búin að þessu? (já)
    En hinu? (kannski)
    Hvað með þetta? (nei)

    Ég veit að ég á eftir að kaupa meiri gjaldeyri, setja sumardekkin undir bílinn og bera fötin mín, hreinlætisvörur, matvæli, dýnu, klósett og kælibox út í hann, og versla ýmislegt smálegt fyrir ferðina – aðallega mat fyrir innanlandslegginn. Ekki væri verra þvo bílinn aftur, því við pabbi vorum ekki fyrr búin að tjöruhreinsa hann, þvo og bóna þegar það kom rigning og öskufok í kjölfarið, þannig að hann er orðinn grá-brún-flekkóttur og talsvert meira áberandi skítugur en fyrir tjöruhreinsunina. En ég held ég geymi það þangað til á Seyðisfirði – hann verður hvort sem er grútskítugur á leiðinni. Þetta er ókosturinn við að eiga hvítan bíl - þeir eru svo afskaplega áberandi skítsælir.

    Svo þarf að pakka niður því sem ég ætla að hafa með mér upp í skipið.

    Loks þarf að ganga frá ýmsu smálegu heima fyrir og í vinnunni, t.d. ræða hversu oft þarf að koma til að vökva blómin mín og hirða póstinn, koma blómunum á skrifstofunni minni í pössun, veita einhverjum umboð til að greiða atkvæði fyrir mína hönd á húsfundinum sem verður haldinn daginn eftir að ég fer, og loks skila páfagauknum sem ég er með í láni frá litla bróður.
    Read more