Í dag er ég búin að skoða ýmislegt.
Fyrst var það skakki turninn í Leeuwarden (Oldehove, mynd nr. 4). Mig svimaði þegar ég sá hann, en ég held að það hafi kannski verið eftirstöðvar af sjóriðunni sem hefur hrjáð mig frá því ég kom í land. Miðbærinn þarna er mjög skemmtilegur, með gömlum húsum, skurðum og skemmtilegum búðum.
Svo var það Eiese Eisinga Planetarium í Franeker (myndir 1 og 2), stórmerkilegt sólkerfislíkan og dagatal, hið elsta í heimi sem enn þá virkar - byggingu þess lauk 1781. Eisinga, sem var ullarkaupmaður að atvinnu, dundaði sér við þetta í frístundum og var að í 7 ár. Gangverkið er úr trétannhjólum og það er drifið áfram af lóðum. Það er staðsett í sjarmerandi gömlu húsi frá 15. öld (mynd 3). Mynd 5 er líka frá Franeker og sýnir götuna þar sem safnið er staðsett.
Svo ók ég yfir Afsluitsdijk, langan varnargarð sem tengir saman héröðin Norður-Holland og Frísland.
Mynd 6 er frá Enkhuizen. Mér fannst skemmtilegt að sjá þetta gamla skakka hús klesst á mili tveggja kirkna.
Svo flæktist ég alveg óvart inn á Beemster-sælandið, þ.e. land sem var áður sjávarbotn en var þurrkað upp (nóg af svoleiðis á þessum slóðum) og rúntaði þar um og rakst á gamlar vindmyllur. Gat því miður ekki stoppað til að taka mynd.
Mynd 7 er tekin á tjaldsvæðinu, sem er það flottasta hingað til. Hér er hægt að gista á hóteli, í smáhýsum, í lúxustjöldum ("glamping"), eða eigin tjaldi, draghýsi eða húsbíl. Svo er bæði bar og veitingahús.Read more
AbfahrtAbenteuer Cool mit der App, danke für die info
Traveler Südafrika lässt grüßen