Á ferð og flugi um landið.
Message
 • Day34

  Ég er aðeins farin að efast...

  September 28, 2019 in Denmark ⋅ 🌧 14 °C

  ...um húsbóndahollustu GPS-tækisins míns.

  Er annars komin til Esbjerg, og er búin að aka frá Rømø, en hana skoðaði ég í morgun. Það var svo mikil rigning á leiðinni að ég hélt á tímabili að ég mundi þurfa að stoppa einhvers staðar og bíða hana af mér. Þetta var á köflum eins og að keyra inni í fossi.

  Læt fljóta með svipmyndir frá Rømø. Það er fallegt þarna og húsin eru flest í gamaldags stíl, með stráþaki og alles. Svo fann ég jólabúð.
  Read more

 • Day33

  Komin til gömlu góðu Danmerkur

  September 27, 2019 in Denmark ⋅ 🌧 13 °C

  Er á leiðinni út á Rømø, með viðkomu í Flensborg til að fara í húsbílabúð. Það er nefnilega þannig að ef maður vill hafa klósett í bílnum, þá þarf efni í það til að koma í veg fyrir lykt, og svo þarf sérstakan klósettpappír sem leysist upp í trefjar, og mig vantaði bæði. Ætlaði fyrst að fara beint upp með austurströnd Danmerkur, en ákvað svo að skoða Rømø og Esbjerg. Sé síðan til, en væri til í að keyra svo til austurs og skoða mig um á Djurslandi og Mols, en þangað hef ég ekki komið áður. Mér áskotnaðist dásemdarinnar kort yfir ýmislegt sem er að sjá í Danaveldi, og það er úr mörgu að velja (sjá mynd).

  Hvað Rømø varðar hef alltaf haft gaman af að stúdera baðstrandarbæi utan við sumarleyfistímann. Sumir eru bara litlausir og dauðyflislegir, aðrir minna á næturklúbb eftir lokun en áður en hreingerningafólkið mætir og einn og einn minnir á aldraða heldri frú sem hefur séð sitt fegursta en heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það verður gaman að sjá hvernig staðan er á Rømø.
  Read more

 • Day8

  Inger

  September 2, 2019 in Denmark ⋅ ⛅ 13 °C

  Eftir fréttirnar af bílnum var ég í svolitlu sjokki og fór og ráfaði stefnulaust um miðbæinn. Settist svo niður fyrir utan Salling-stórverslunina og heyrði einhvern hávaða fyrir ofan mig og leit upp. Það er s.s. brúarstubbur með glerbotni uppi á þaki hússins, og þar uppi voru krakkar að fíflast og taka myndir.

  Allt í einu er ég ávörpuð og það er gömul, ömmuleg kona, örugglega á tíræðusaldri, sem spyr hvort ég hafi komið þarna upp, og þegar ég segi svo ekki vera vill hún endilega sýna mér og dró mig með sér þarna upp. Við settumst svo inn á kaffihúsið sem er þarna uppi og drukkum kaffi (ég) og kakó með þeyttum rjóma (hún) og spjölluðum saman í dágóða stund.

  Útsýnið ofan af þakinu er ekki síðra en ofan af Aros, og það kostar ekkert að fara þarna upp.

  Leiðir skildi svo niðri á götu og það var mun léttara yfir mér eftir þetta. Kærar þakkir, Inger.
  Read more

 • Day8

  Ég held það megi alveg fullyrða...

  September 2, 2019 in Denmark ⋅ ☀️ 15 °C

  ...að þetta er orðið dýrasta ferðalag sem ég hef farið í og borgað sjálf. Bilunin var í spíss nr. 2 og viðgerðin kostar rétt tæp 190 þúsund.
  Góðu fréttirnar eru að ég fæ bílinn í fyrramálið. Vonast því til að komast til Ítalíu 5. eða 6. september.Read more

 • Day7

  Sunnudagur í Árósum

  September 1, 2019 in Denmark ⋅ ⛅ 18 °C

  Ég byrjaði daginn á kaffi og croissant á kaffihúsi í Bruuns-verslunarmiðstöðinni sem er í næsta húsi við hótelið. Eyddi svo morgninum í ráp og innkaup. Eftir hádegismatinn tæklaði ég svo Aros - listasafn borgarinnar. Þar eru ýmssar sýningar og innsetningar í gangi. Hér er smá sýnishorn.
  Það var mjög gaman að koma inn í regnbogalistsverk Ólafs Elíassonar sem trónir efst á byggingunni, en ég held að "Drengur" eftir Ron Mueck sé kannski það áhrifamesta. Speglainnsetningin var mjög skemmtileg.
  Read more

 • Day6

  Strand

  August 31, 2019 in Denmark ⋅ ⛅ 21 °C

  Dagurinn byrjaði vel: ég var sloppin frá borði um ellefu og brenndi beint út á hraðbraut. Áfangastaður: Hamborg.
  Stoppaði aðeins í Bilka í útjaðri Árósa og var svo nýkomin út á hraðbrautina aftur þegar bíllinn fór að missa afl og svokallað glóðarperuljós birtist í mælaborðinu. Ég skellti neyðarljósunum á og vék út á vegaröxl og hökti út af hraðbrautinni á meðan bíllinn hægði sífellt á sér og gangurinn í honum var eins og í trillu eða gamalli dráttarvél. Sat svo úti í vegarkanti í 26 °C hita og hringdi eftir hjálp.
  FÍB gat ekkert hjálpað mér - þau eru ekki með gagnkvæman samning við samsvarandi samtök í DK. Ég ber því ein allan kostnað af dráttarbílnum, sem er um 20 þúsund.
  Dráttarbílstjórinn og maður á VW-verkstæðinu þangað sem bíllinn var dreginn voru mér sammála um að þetta væru sennilega spíssarnir. Vona bara að það verði hægt að laga þetta strax á mánudaginn svo ég geti haldið áfram för.
  Ég er nú á hóteli í miðborg Árósa, og vitiði hvað: það var að byrja bæjarhátíð hérna.
  Read more

Never miss updates of Þangað og heim aftur with our app:

FindPenguins for iOS FindPenguins for Android