• Þangað og heim aftur
  • Þangað og heim aftur

Ítalía 2019

Flakkferð um norður Ítalíu í september 2019. Read more
  • Ég er aðeins farin að efast...

    September 28, 2019 in Denmark ⋅ 🌧 14 °C

    ...um húsbóndahollustu GPS-tækisins míns.

    Er annars komin til Esbjerg, og er búin að aka frá Rømø, en hana skoðaði ég í morgun. Það var svo mikil rigning á leiðinni að ég hélt á tímabili að ég mundi þurfa að stoppa einhvers staðar og bíða hana af mér. Þetta var á köflum eins og að keyra inni í fossi.

    Læt fljóta með svipmyndir frá Rømø. Það er fallegt þarna og húsin eru flest í gamaldags stíl, með stráþaki og alles. Svo fann ég jólabúð.
    Read more

  • Ég er stödd á eðal-tjaldstæði

    September 28, 2019 in Denmark ⋅ 🌧 14 °C

    ...í Esbjerg. Á leiðinni hingað var rigningin farin að fara í pirrurnar á mér og því ákvað ég að gera eitthvað til að létta lundina, og úr varð að elda mér eitthvað gott. Niðurstaðan var útilegukássa (1 ds tómatar, 1 ds nýrnabaunir, pylsutittir, beikonteningar, þurrkaður laukur, hvítlaukur, salt, pipar og grænmetiskraftur) og af því að það er eldunaraðstaða hérna þurfti ég ekki að elda í bílnum í rigningunni. Sýnishorn af henni má nálgast á Instagramminu mínu.Read more

  • Svipmyndir frá Esbjerg

    September 29, 2019 in Denmark ⋅ ⛅ 13 °C

    Ég eyddi morgninum í að heimsækja nytjamarkaði í Esbjerg og nærliggjandi bæjarfélögum - það viðraði ekki til útiveru og eitthvað þurfti ég að gera af mér.
    Náði sjö á 2 1/2 klst. Gott að nota Google Maps til að kortleggja og GPS-tækið til að leiðbeina sér.

    Afraksturinn var ss ekki mikill - 3 bækur og 8 lítil koníaksglös sem mamma hefur verið að leita að með logandi ljósi í nokkur ár. Hefði getað fyllt bílinn af garni, en það er frekar dýrt verðlagt og ég stóðst þær freistingar.
    Read more

  • Kolding

    October 1, 2019 in Denmark ⋅ ⛅ 7 °C

    Ég er á tjaldstæði í Kolding, á austurströnd Danmerkur. Mundi allt í einu í gærkvöldi eftir krukku af hveiti í matarskúffunni, og af því að ég átti líka til egg, mjólk og smjör, þá skellti ég í lummur í morgunmatinn, og bætti svo við beikonteningum og spældi hitt eggið. Þetta er örugglega matarmesti morgunmaturinn sem ég hef borðað í ferðinni.

    Held ég þurfi að fara og versla í ískápinn á eftir.

    GPX-skráin sýnir ferðalag gærdagsins.
    Read more

  • Kvöldmaturinn

    October 1, 2019 in Denmark ⋅ ⛅ 10 °C

    Ég átti lummur/blini afgangs frá gærkvöldinu og ákvað að gera eitthvað gott úr þeim, svo ég hitaði þær upp, bætti við smjöri og karamellusósu (sykurlausri) og var byrjuð á þessu þegar það hvarflaði að mér að bæta við hindberjum og þetta var ekki bara fallegt, heldur verulega gómsætt.

    GPX-skráin sýnir ferðalag dagsins.
    Read more

  • Djursland og Mols

    October 2, 2019 in Denmark ⋅ ⛅ 9 °C

    Ég fór út á Djursland og keyrði þar hringinn í dag. Var sérstaklega hrifin af hæðóttu landslaginu í Mols Bjerge-þjóðgarðinum. Hitti þar íslenska hesta, og naut góðs veðurs um stund, og svo fór að rigna og ég tók stefnuna á Álaborg. Lenti þar í hremmingum.

    Fyrst þurfti ég að keyra, eða öllu heldur silast, í gegnum miðbæinn um fjögurleitið, til að komast á tjaldstæðið sem GPS-tækið vísaði mér á. Kom að byggingarsvæði þar sem það átti að vera. Síðan aftur inn í miðbæ, þar sem umferðin hafði heldur þyngst. Það tók mig 45 mínútur að keyra 1,6 km! Held ég kvarti aldrei aftur yfir umferðinni í Reykjavík.

    Vitiði hvað? Þetta tjaldsvæði var líka orðið að byggingarlóð.

    Síðan ók ég 30 km, á tjaldstæði... sem var lokað. En sem betur fer var annað í nágrenninu og það var opið, þó ég þyrfti reyndar að hringja í umsjónarmanninn til að láta hleypa mér inn. Þetta stæði lokar á laugardaginn kemur, þannig að ég var heppin.

    En, það er hérna í bænum tvennt sem ég hef hug á að skoða á morgun, þannig að kannski var mér ætlað að flækjast hingað.
    Read more

  • Grenen

    October 3, 2019 in Denmark ⋅ ⛅ 9 °C

    Ég fór út á Grenen í dag - nyrsta punkt Danmerkur. Landslagið hérna er eyðilega fallegt, sandhólar vaxnir grastegundum, kjarri og trjám. Birtan minnir á Ísland, mjög tær og loftið er hreint og hressandi.

    Skoðaði m.a.s. kirkjuna í sandinum og skotbyrgi frá seinni heimsstyrjöld. Kirkjan var afhelguð og kirkjuskipið rifið þegar ljóst varð að ekki væri hagkvæmt að verja hana fyrir því að sökkva í sandinn, en turninn fékk að standa sem siglingamerki.

    Taldi 12 stór flutningaskip úti á Kattegat.

    Skagen, þ.e. bærinn, ekki skaginn sjálfur, er mjög gulur - maður sér varla annan lit á húsum í gamla bænum.
    Read more

  • Líður að heimför

    October 4, 2019 in Denmark ⋅ ☁️ 7 °C

    Ég var komin á tjaldstæði um fimmleitið í gær. Dagurinn hafði verið bjartur og svo til logn, en mér fannst vera rigningarlykt í loftinu og ákvað að gera tiltekt í bílnum þá, frekar en í dag, bara til vonar og vara. Náði að pakka niður fötum og fleiru fyrir siglinguna, og troða ýmsu lauslegu ofan í rúmbekkinn. Kláraði líka kælivöruna úr ískápnum, enda er ekki hægt að hafa hann í gangi á heimleiðinni.

    Seint um kvöldið kom svo hellirigning, og það rigndi fram að hádegi, og var kalt eftir það, um 7 °C. Ég fór því í annan nytjamarkaðaleiðangur og náði 6 nytjamörkuðum, einum flóamarkaði og einni skranbúð. Afraksturinn voru 3 bækur og ein stytta í smádótasafnið mitt.

    Strandmyndin sýnir hvað veðrið var yndislegt í gærmorgun, og hin myndin er af sjarmerandi gamalli vöruskemmu í Hjørring sem nú hýsir m.a. dýrlega skranbúð.

    Það eru einhverjar gloppur í GPX-skrá dagsins.
    Read more

  • Þá fer að líða að því...

    October 5, 2019 in Denmark ⋅ ⛅ 5 °C

    Norræna var að sigla í höfn. Ég er búin að vera að gera mig og bílinn tilbúin til brottfarar. Pakkaði niður rúmfötum, nærfötum til skiptanna, hlýjum fötum og afþreyingu, og er núna að ganga þannig frá bílnum að ekkert geti skrölt, runnið til eða dottið ef það verður slæmt í sjóinn á leiðinni.Read more

  • 5. okt., kl. 19:28

    October 5, 2019 in Iceland ⋅ ⛅ 8 °C

    ... og það eru ca. 4 tímar frá því að skipið lagði úr höfn. Strönd Skandinavíuskagans er djúpur skuggi úti í myrkrinu og stöku ljós tindra í skugganum; þ.á m. sá ég ljós frá vita fyrir ca. hálftíma síðan. Enn sem komið er er siglt inni á landgrunni og það er tiltölulega rólegt í sjóinn en einhvern tímann í kvöld eða nótt siglir skipið út á djúpsævi og þá fer hafaldan að láta vita af sér.Read more

  • Innviðir Norrænu: 3. farrými

    October 5, 2019, North Atlantic Ocean ⋅ 🌙 9 °C

    Það heitir auðvitað ekki 3. farrými, en það er staðsett á hefðbundnum stað fyrir það farrými: neðst allra klefa í skipinu - ég held undir sjólínunni. Bara sundlaugin og líkamsræktarsalurinn eru neðar, af því sem farþegar hafa aðgang að.

    2. farrými kalla ég 4 manna klefana, sem eru með sér baðherbergi, en maður þarf samt að vera með ókunnugum í klefa ef maður nær ekki saman 4 manna hópi.

    1. farrými eru svo einkaklefarnir.

    Það er annars bara heimilislegt niðri í kojufarrýminu. Gangurinn er ekki eins langur og hann virkar - ég notaði gleiðlinsunna á símanum og hún teygir á öllu. 6 kojur í hverjum klefa, 8 klefar á hverjum lokuðum gangi, kynin aðskilin í klefa en ekki ganga.
    Read more

  • 6. okt. kl. 14:35

    October 6, 2019 in Iceland ⋅ ⛅ 10 °C

    Kafteinninn var að enda við að tilkynna að skipið mundi leggjast að bryggju í Þórshöfn kl. 22:30 í kvöld, en ekki í fyrramálið eins og til stóð, og að bara farþegar til Færeyja fengju að fara í land. Skipið siglir svo af stað til Íslands eins fljótt og auðið er.
    Ef ég skildi svo þýska fararstjórann sem sá um þýsku tilkynninguna rétt, þá verður skipið komið til Seyðisfjarðar kl. 17 á mánudaginn, en ekki kl. 9 á þriðjudag.
    Engin skýring var gefin, en ég ímynda mér að sennilega sé skipið í kappsiglingu við krappa vetrarlægð - ég fékk nefnilega, áður en ég lagði af stað frá Danmörku, viðvörun um að það gæti orðið slæmt sjólag á mánudaginn.
    Read more

  • 6. okt. kl. 15:45

    October 6, 2019 in Iceland ⋅ ⛅ 10 °C

    Hreyfingin á skipinu hefur verið að smáaukast frá því morgun, og af og til er veltan nógu mikil til að hafa áhrif á jafnvægi farþega skipsins. Það er alskýjað og frekar dimmt miðað við tíma dags, en þó sjást sólstafir í fjarska og svæði á sjónum undir þeim virðist glóa silfurhvítt.Read more

  • Púff!

    October 6, 2019, North Atlantic Ocean ⋅ ⛅ 10 °C

    Það er heitt inni í Norrænu. Ef ekki væri fyrir klefafélagana mundi ég sofa á brókinni með ekkert ofan á mér - svona svipað og ég gerði úti á Ítalíu fyrir ekki svo löngu síðan.

    Ég kófsvitnaði af því einu að sitja inni á bar og hekla, og þó var ég í stuttermabol. Skil ekkert í þessari kappkyndingu, nema ef vera skildi að mikill meirihluti af farþegunum virðist vera á eftirlaunaaldri. Eða er ekki sagt að fólki á þeim aldri sé alltaf svo kalt?
    Read more

  • Allt á uppleið

    October 6, 2019 in Iceland ⋅ ⛅ 8 °C

    Það er mættur söngvari/gítarleikari og söngkona með honum og þau eru að skemmta með söng og spileríi. Held þó að það hefði mátt lýsa þau upp með einhverjum öðrum lit - það er eins og Hulk og græna gellan úr Guardians of the Galaxy séu á sviðinu!Read more

  • Á tjaldstæðinu

    October 8, 2019 in Iceland ⋅ ⛅ 10 °C

    "Sorry, I don't speak Icelandic."

    Ég held í alvöru að ferðaþjónustan hafi gleymt því að íslendingar ferðast líka um landið. Það ætti að vera réttur okkar að geta keypt vörur og þjónustu án þess að þurfa að nota til þess erlend tungumál. Þegar við förum að sætta okkur við að þurfa að tala ensku við afgreiðslufólkið, þá er farin að steðja hætta að tungumálinu.Read more

    Trip end
    October 8, 2019