• Þangað og heim aftur
  • Þangað og heim aftur

Ítalía 2019

Flakkferð um norður Ítalíu í september 2019. Read more
  • Ég þakka nú bara fyrir að vera óslösuð

    September 6, 2019 in Italy ⋅ ⛅ 16 °C

    ...og bíllinn í heilu lagi. Í gær lenti ég nefnilega í því á autoströdunni að það svínaði fyrir mig lítill flutningabíll. Á fullum hraða (110 km/klst) hefði þetta orðið banaslys, en sem betur fer hafði hægt svo á umferðinni að hún rétt lúsaðist áfram og því náði ég að negla niður og hann líka. Þetta er góð áminning um að líta ekki bara í baksýnisspegilinn áður en maður tekur fram úr, heldur að nota líka hliðarspeglana.Read more

  • Bolzano og áfram

    September 6, 2019 in Italy ⋅ 🌧 17 °C

    Ég náði til Bolzano í hádeginu í gær og villtist bara einu sinni í leit minni að hótelinu sem mamma og pabbi voru á. Það er lítið, einkarekið, og notalegt, og ég gat lagt, með herkjum og hjálp, fyrir utan. Veðrið var dásamlegt, sól og hæfilega heitt, um 24 °C. Fór með mömmu og pabba í labbitúr og við fengum okkur pikknikk-hádegismat í litlum almenningsgarði. Höfðum það svo notalegt það sem eftir lifði dags.

    Leiðir skildi svo í morgun - þau lögðu af stað til Bled í Slóveníu og ég varð eftir í Bolzano. Fór í miðbæinn, sem er fallegur og sjarmerandi, og var komin í röð fyrir utan Fornminjasafn Suður-Týról 5 mínútum fyrir opnun. Skoðaði sýningu um ísmanninn svokallaða, Ötsi. Ég skora á þá sem ekki þekkja til að kynna sér hann - hann er stórmerkilegur. (Mynd 1).

    Það var rigning þegar ég fór inn á safnið kl. 10, og það var meiri rigning þegar ég kom út um hálf-tólf. Ég ákvað því að yfirgefa staðinn og skipaði GPS-tækinu að leiðsegja mér til Verona. Ók í ausandi rigningu um helming leiðarinnar, í gegnum stórkostlegt alpalandslag (það sem ég sá af því fyrir súld/þoku).

    Fyrst voru tré til beggja handa, en svo þegar neðar dró ók ég eftir sveitavegum á milli stórra aldingarða þar sem aðallega virtust ræktuð epli, og í gegnum pínulítil þorp. (Mynd 2)

    Svo tók við blandaður landbúnaður, þ.á m. vínekrur; það stytti svo upp og ég kom neðar, í meira þéttbýli; og loks tóku við iðnaðar- og verslunarhverfi og þá var komið þrumuveður í fjarska og aftur orðið rigningarlegt.

    Ég kom mér á tjaldstæði í einu úthverfi Verona rétt áður en það fór aftur að rigna. Ætla svo að skoða veðurspá áður en ég ákveð hvort ég fer í austur eða vestur á morgun. Er lítið spennt fyrir Feneyjum í rigningu, en get vel skoðað söfn í Mílanó þó það mígrigni.
    Read more

  • Komin til Feneyja, eða tæknilega Veneto

    September 7, 2019 in Italy ⋅ ⛅ 22 °C

    Ég er nefnilega úti á tiltölulega mjóu nesi sem, ásamt Lido-sandrifinu og nokkrum eyjum, myndar ytra byrði lónsins sem umlykur Feneyjaborg. Ákvað að vera þar af ýmsum ástæðum og tjaldstæðið var valið vegna þess að það er nálægt ferjustöðinni þar sem ferjurnar inn til Feneyja og yfir á Lido og Murano eru staðsettar. Það tekur mig 30-45 mín. að komast til Feneyja með ferjunni, en það er bara notalegt og ég nýti tímann í að undirbúa mig andlega fyrir mannþröngina. Ég held að ég komi ekki til með að kvarta mikið undan túristum heima eftir að hafa verið hér.

    Það var herfileg veðurspá í Verona, og því stoppaði ég ekki lengur þar.

    Fékk hið besta veður í dag (laugardag), og borðaði fyrstu pizzuna í ferðinni: Crudo, þ.e. með hráskinku. Þau gætu lært sitthvað af þessu hjá Eldsmiðjunni...
    Read more

  • Rigningardagurinn mikli

    September 8, 2019 in Italy ⋅ 🌧 18 °C

    Það var þungbúinn himinn sem mætti mér þegar ég kom út út bílnum í morgun. Smá gúgl staðfesti að það var spáð þrumuveðri og miklar líkur á rigningu, svo ég klæddi mig samkvæmt því, fór í buxur og hnésíðan kjól og jakka og tók með mér regnhlíf. Hún átti eftir að koma sér vel...

    ...því það rigndi með köflum alveg til rúmlega fjögur, en þá kom sólin fram undan skýjunum, yfir Feneyjum a.m.k.

    Ég skoðaði því söfn og fór á rúntinn upp og niður Canal Grande með vaporetto, sem er strætó þeirra Feneyinga. Byrjaði á höll hertoganna (mynd 1).

    Svo Markúsartorg á meðan stytti upp í smástund (mynd 2) og því næst rúntur með vaporetto í rigningunni (mynd 3).

    Svo Peggy Guggenheim-nútímalistasafnið. Það er lágreista hvíta byggingin til móts við bátinn á mynd 4 (ath. að myndir nr 1 og 3 eru samsettar).

    Fór svo að tygja mig "heim" á leið, og vitiði hvað? Það kom sól. Ég fór nú samt heim í bíl, enda þreytt eftir viðburðamikinn dag.

    Svo á víst sólin að skína á morgun.
    Read more

  • Komin til San Marino...

    September 10, 2019 in San Marino ⋅ ⛅ 23 °C

    ...eftir ekkert rosalega langa dagleið, en mjög seinfarna. Ég lagði af stað frá Cavallino-Treporti um kl. 8:00 og var komin til San Marino um 15:15 = ca. 7 klukkutímar sem tók að komast tæpa 300 km. Þar af hefur farið ca. einn og hálfur klukkutími í hvíldarstopp, því svona akstur er mjög þreytandi. Til viðmiðunar er þetta ca. vegalengdin frá Reykjavík til Blönduóss, sem maður fer yfirleitt á ca. 3 1/2 klst. með stuttum stoppum í Borgarnesi og Staðarskála.

    Ástæðan? Svæðið er mjög þéttbýlt og hámarkshraðinn í bæjunum er 50 km/klst, þ.e. þegar hann er ekki 30 eða 40. Hraðinn úti á vegunum getur verið mjög breytilegur og ég ók t.d. í gegnum 50, 60, 70, 90, 110 og 130 km/klst. svæði. Stundum fær maður að keyra heila 300 metra á 70 á milli tveggja 50 km svæða.

    Ég er fegin að það eru góðar bremsur í bílnum, því það eru hraðamyndavélar á hverju strái og vissara að halda réttum hraða ef maður vill ekki fá glaðning með póstinum.

    Svo eru það hringtorgin. Ég held að það séu góðar líkur á að Ítalir (eða rómverskir forfeður þeirra) hafi fundið þau upp. Þau eru a.m.k. nógu andskoti mörg hérna, og sum risastór.

    Ég held ég láti þetta nægja í bili.

    P.s. ég er að hugsa um að skrifa lýsingu á ítalskri umferðarmenningu. Hún er... áhugaverð.

    P.p.s. gps-slóðin er svolítið skrítin - ég gleymdi tvisvar að setja tækið af stað eftir hvíldsrstopp.
    Read more

  • Komin til Siena

    September 11, 2019 in Italy ⋅ ☀️ 28 °C

    Vegalengdin var lítið styttri í dag en í gær, en ég var bara 4 1/2 tíma á leiðinni, enda valdi ég að fara hraðbraut fyrstu ca. 50 km og var síðan svo heppin að lenda á vegum þar sem maður var ekki alltaf að hægja á sér til að keyra í gegnum þéttbýli eða um hringtorg, þannig að þetta gekk vel.

    Er búin að vera á ferðinni í dásamlegu landslagi í mestallan dag. Fyrst var ég á vegi sem lá í gegnum Appenína-fjöll, með skógi vaxnar fjallshlíðar þar sem af og til glitti í gráhvíta klettaveggi og langt var á milli byggðra bóla.

    Svo kom ég niður úr fjöllunum og landslagið breyttist yfir í ávalar hæðir með alls konar ökrum, og húsum standandi einum upp á hæðum og röð af grátvið meðfram innkeyrslunni. Ef einhver hefur horft á Under the Tuscan Sun, þá er það landslagið.

    Pósta myndum þegar ég hef tekið einhverjar, en nú ætla ég að slaka á það sem eftir lifir dags.

    GPS-slóðin seinni hluta ferðarinnar er röng - síminn missti gervihnattasambandið og því er bein lína þar sem ætti að vera hlykkjótt.
    Read more

  • Svipmyndir frá Siena

    September 12, 2019 in Iceland ⋅ ⛅ 7 °C

    Siena er mjög falleg, en það var djöfullega heitt hérna í gær og ætlar að verða verra í dag. Ég er flúin inn í loftkælda verslunarmiðstöð og er að fá mér að borða og ætla síðan í siestu upp á tjaldstæði.Read more

  • San Gimignano

    September 13, 2019 in Italy ⋅ ☀️ 30 °C

    Ath. Netsambandið hérna er hroðalegt. Myndirnar kom inn um leið og hægt er.

    Var í San Gimignano í morgun. Hún er talin vera ein best varðveitta miðaldaborg Ítalíu (hvar hef ég heyrt þetta áður?) og er mjög falleg. Hér var til forna stunduð sú undarlega keppnisíþrótt að reisa turna. Útsýnið úr þeim hæsta er frábært (mynd 2).

    Er nú komin til Flórens og er á tjaldstæði í hæðunum fyrir ofan borgina. Hér er heitt: hitamælirinn í bílnum sýndi 34 °C um tvöleitið. Sem betur fer er þetta þurr hiti, sem ég þoli mun betur en rakan hita.
    Read more

  • Flórens

    September 14, 2019 in Italy ⋅ ⛅ 27 °C

    Kom til úthverfis Flórens í gær og gat lítið annað en að koma mér fyrir á tjaldstæðinu og falla í mók í hitanum. Hann fór í 34 °C.

    Fór svo inn í miðborg í morgun. Komst inn í Academia-safnið til að skoða Davíð eftir bara hálftíma bið. Það safn er mjög fallegt og þess virði að skoða, þó að megnið af listaverkunum sé með trúarlegu þema, sem er vanalega ekki eitthvað sem ég hrífst af ( nema ég litast alltaf um eftir heilögum Hýerónýmusi, sem er verndari þýðenda).

    Fór svo á röltið. Nennti ekki að bíða eftir að komast inn í dómkirkjuna, en dáðist að henni utanfrá.

    Er ekki jafn hrifin af Flórens og Siena - finnst hún hálf-fráhrindandi, en kannski er það hitanum að kenna.

    P.s. ef ykkur langar að sjá hvað ég villtist rækilega í Flórens við að leita að fyrst einu og svo öðru tjaldstæði, opnið þá .gpx-skrána og skoðið Flórens-endann á kortinu. Annað tjaldstæðið var ekki til, og hinu var búið að loka, en það gerði ekkert - ég endaði uppi á frábæru tjaldstæði úti í sveit.
    Read more

  • Flórens-Pisa, með viðkomu í Primark

    September 15, 2019 in Italy ⋅ ☁️ 26 °C

    Ég ók frá Flórens til Pisa í dag. Aksturinn tók ekki nema um 3 tíma, en ég var dugleg að stoppa til að viðra mig, og fór m.a. í Primark og fékk þar hlý náttföt til að nota í bílnum heima á fróni.

    Kom til Pisa um fjögurleitið og uppgötvaði að tjaldstæðið er ekki nema í um 800 metra fjarlægð frá aðalaðdráttaraflinu, svo ég brá mér í labbitúr og kíkti á þann skakka. Það var gaman að fylgjast með fólki að taka "rétta við turninn" og aðrar sjónarhornsmyndir.

    Ég labbaði svo í bæinn og mætti lúðrasveit á hestbaki. Í kjölfar hennar kom svo götusópari sem þreif jafnóðum upp skítinn eftir hrossin. Á leiðinni til baka rakst ég aftur á lúðrasveitina, sem virtist hafa stillt sér upp til myndatöku. Það væri gaman að vita hvort þetta er daglegur viðburður eða hvort þetta var af sérstöku tilefni.

    P.s. aftur er áhugavert að skoða .gpx-myndina, sérstaklega þegar ég nálgast Pisa. Slaufurnar voru svo svakalegar að ég veit ekki hvað ég fór í marga hringi - og þetta eru ekki villur, heldur leiðin á tjaldstæðið.
    Read more

  • Nú er ég hætt þessu!

    September 16, 2019 in Italy ⋅ 🌙 23 °C

    Ég er búin að gefast upp á hitanum og ætla að taka stefnuna norður á bóginn. Það er lítið mál að vera í svona hita á daginn, en að sofa í þessu á nóttunni er skelfilegt. Eini tími dagsins þegar það er einhver svali er seint á nóttunni/eldsnemma á morgnana, og það er þá sem ég loksins næ að hvílast aðeins.

    Ég ákvað að Mílanó, Como-vatn og Cinque Terre gætu beðið til betri tíma ( t.d. þegar ég tek suður-Ítalíurúnt eða kannski flýg ég bara til Mílanó og skoða hitt í leiðinni). Tók því strikið til San Remo, með viðkomu í Genúa. Sú borg er ekkert smá falleg, en umferðin þar er hryllingur. Rivíeran eins og hún leggur sig er mjög falleg. Að keyra meðfram Levante-ströndinni er eins og að vera í Flórída, mínus öll ljótu auglýsingaskiltin. Autostradan sem ég ók eftir í dag liggur í bókstaflegri merkingu í gegnum, eða kannski undir, Lígúríu-hérað - það er svo mikið af veggöngum á leiðinni.

    Er nú í smábæ stutt frá frönsku landamærunum. Ætla á morgun í sædýrasafnið í Mónakó, og taka svo stefnuna í norður. Gæti vel hugsað mér að koma við í Genf og halda svo til Lúxemborgar og etv. Belgíu.
    Read more

  • Það er ekki neitt svalara hérna, en...

    September 17, 2019 in France ⋅ ☀️ 27 °C

    ...bara vitneskjan um að á morgun sný ég nefi í norður í leit að aðeins svalara veðri er nóg til að mér líður strax betur. Ég er einhvers staðar í nágrenni við Aix-en-Province og er búin að vera í þremur löndum í dag. Mónakó er að vísu ekki stærra en frímerki, en það telst samt með😊
    Sædýrasafnið er meiriháttar, og hafrannsóknasafnið er áhugavert.
    Er annars búin að vera á akstri lungann úr deginum.
    Read more

  • Nîmes

    September 18, 2019 in France ⋅ ⛅ 27 °C

    Í dag skoðaði ég eitt best varðveitta hringleikahúsið sem til er frá tímum Rómverja. Það er staðsett í Nîmes, sem var á sínum tíma mikilvæg fyrir tangarhald Rómarveldis á svæðinu. Það varðveittist svona vel af því að því var breytt í virki eftir að Róm missti borgina úr höndum sér. Það er enn þá notað sem tónleikastaður og leikhús.
    Fór svo inn í bæinn og viti menn: ég fann ísbúð sem seldi sykurlausan ís!
    Read more

  • Pont d'Arc

    September 19, 2019 in France ⋅ ⛅ 16 °C

    Ég uppgötvaði í morgun, á leiðinni af tjaldstæðinu í Avignon, að þessi hálfa brú, sem mun vera eitt af undrum bæjarins, var rétt hinum megin við ána (Rhône). Labbaði aðeins um bæinn og fór svo í fiðrildahús sem er ekki langt frá Avignon.

    Síðan lá leiðin upp í Ardèche-gljúfur, sem er stórkostlegt náttúruundur. Er nú þar á tjaldstæði, og eins og má sjá er eftir ýmsu að sækjast á því. Er jafnvel að pæla í að fara og svamla í ánni á morgun.
    Read more

  • Ég var í gær á tjaldstæði úti í sveit...

    September 20, 2019 in France ⋅ ☀️ 8 °C

    ...og umkringd hænum. Ólíkt hundum, sem betla frekar kurteisislega, þá ógna þessi kvikindi manni og sveima eins og illa lyktandi hákarlar þar til maður lætur undan og gefur þeim að éta. Þær voru orðnar fjórar þegar mest var, og ein þeirra stökk upp og reyndi að grípa samlokuna mína í gogginn. Önnur reyndi að fá sér sopa úr kaffikrúsinni minni, og sú þriðja reyndi að hoppa upp í bílinn minn. Sú fjórða var klárlega að plotta eitthvað.

    Svo eru hérna voða krúttlegar litlar kolsvartar hænur með fiðraðar lappir, en af þeim er ómögulegt að ná mynd, því þær hlaupa um eins og fjandinn sé á hælunum á þeim.

    Að öðru leiti er þetta bara hið besta tjaldstæði, mjög kyrrlátt og notalegt.
    Read more

  • Lux-Trier-Köln

    September 23, 2019 in Germany ⋅ ⛅ 18 °C

    Ég er komin með hálfgerðan ferðaleiða. Hann sprettur yfirleitt fram í lok 3. eða byrjun 4. viku langra ferðalaga hjá mér og lýsir sér í því að mig langar ekkert sérstaklega að skoða fleiri kirkjur/söfn/kastala/virkisborgir/miðaldabæi (í Evrópu, það er annað sem ég fæ leið á í öðrum heimsálfum), sama hversu merkilegt þetta telst. Var farin að finna fyrir þessu í Avignon, þar sem páfahöllin hefði venjulega sogað mig til sín, en ég nennti ekki einu sinni að fara og leita að henni þegar ég hélt í bæinn til að fá mér morgunverð.

    Það birti aðeins til í Ardèche-héraði, enda hef ég lítið séð af mikilfenglegri náttúru síðan ég kom niður úr Ölpunum, þó að vissulega hafi ég séð helling af landslagi.

    Í Lúxemborg nennti ég varla að fara í bæinn, en gerði það samt, en gat ekki æst mig upp í að fara í skipulagða skoðunarferð og lét mér nægja að labba hring í gegnum háborgina. Held ég hefðu gaman af að fara þangað aftur þegar ég er betur upplögð, því að saga landsins er stórmerkileg og eiginlega furðulegt að það hafi ekki orðið hluti af einhverju af stærri nágrannaríkjunum þegar þau voru að myndast.

    Í dag ók ég svo til Kölnar, með viðkomu í Trier, virti þar fyrir mér svarta turninn og fékk mér tyrkneska pizzu.

    Ætla svo að skoða Köln á morgun.
    Read more

  • Köln

    September 24, 2019 in Iceland ⋅ ☁️ 11 °C

    Hvað gerir maður þegar ferðaleiðinn sækir á?

    Jú, maður breytir til. Þess vegna fór ég í dýragarð í morgun, og langan labbitúr inn í miðborg Kölnar. Kíkti inn í dómkirkjuna, sem var alveg jafn stór og mig minnti, og skellti mér svo í verslunarleiðangur.
    Primark er allt gott og blessað, en uppáhaldsbúðirnar mínar í Þýskalandi eru C&A, því þer get ég alltaf fundið á mig föt. Ætla samt ekki að kaupa á mig dirndl, sama hvað það er til mikið úrval af þeim.
    Read more

  • Hanover

    September 25, 2019 in Germany ⋅ 🌧 15 °C

    Ég fór og skoðaði Sprengel-nútímslistasafnið í Hanover. Sá þar margt bæði áhugavert og skrítið, og líka illskiljanlegt, fallegt og umhugsunarvert, t.a.m. sýningu á því sem nasistar stimpluðu sem úrkynjaða list. Sá lítið úrkynjað við þau verk, en get vel skilið að listaverk sem sýna eitthvað annað en fólk er vant geti valdið ótta og andstyggð hjá því.Read more

  • Var í Bremen, og þá hef ég komið til...

    September 26, 2019 in Germany ⋅ ⛅ 17 °C

    ...allra þýsku sambandsríkjanna.

    Hér er falleg haustmynd frá tjaldstæðinu sem ég gisti á í nótt, og listaverk gærkvöldsins (það er krítartafla í bílnum). Tók engar myndir á labbi mínu um miðbæinn í Bremen.Read more

  • Komin til gömlu góðu Danmerkur

    September 27, 2019 in Denmark ⋅ 🌧 13 °C

    Er á leiðinni út á Rømø, með viðkomu í Flensborg til að fara í húsbílabúð. Það er nefnilega þannig að ef maður vill hafa klósett í bílnum, þá þarf efni í það til að koma í veg fyrir lykt, og svo þarf sérstakan klósettpappír sem leysist upp í trefjar, og mig vantaði bæði. Ætlaði fyrst að fara beint upp með austurströnd Danmerkur, en ákvað svo að skoða Rømø og Esbjerg. Sé síðan til, en væri til í að keyra svo til austurs og skoða mig um á Djurslandi og Mols, en þangað hef ég ekki komið áður. Mér áskotnaðist dásemdarinnar kort yfir ýmislegt sem er að sjá í Danaveldi, og það er úr mörgu að velja (sjá mynd).

    Hvað Rømø varðar hef alltaf haft gaman af að stúdera baðstrandarbæi utan við sumarleyfistímann. Sumir eru bara litlausir og dauðyflislegir, aðrir minna á næturklúbb eftir lokun en áður en hreingerningafólkið mætir og einn og einn minnir á aldraða heldri frú sem hefur séð sitt fegursta en heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það verður gaman að sjá hvernig staðan er á Rømø.
    Read more