Evrópa 2017

mars - juni 2017
En 93-dags äventyr från Þangað og heim aftur Läs mer
  • 66fotavtryck
  • 5länder
  • 93dagar
  • 129foton
  • 0videoklipp
  • 9,7kkilometer
  • 4,0kkilometer
  • Dag 53

    Fyrsta heita máltíðin

    11 maj 2017, Tyskland ⋅ ☀️ 18 °C

    Ég hef verið hikandi við að elda mat inni í bílnum, bæði út af lykt og hreinlæti. Ferðagashellan sem ég er með virkar illa utandyra ef það örlar á vindi og ef það hefur verið innieldunaraðstaða á húsbílastæðunum sem ég hef verið á hingað til, þá hefur það farið fram hjá mér. Því hef ég í mesta lagi hitað mér vatn í te hingað til í ferðinni.
    En þar sem ég er núna er þessi fína eldunaraðstaða, þannig að ég dreif í heita máltíð. Notaði af því sem ég átti í bílnum og bjó til þennan fína baunarétt.
    Uppskriftin: 1/2 laukur, sneiddur; 1 dós nýrnabaunir; 1 lítil dós tómatkraftur; súpukraftur eftir smekk; dass af sojasósu; smá feiti til að steikja.
    Svissið laukinn í feitinni, bætið við baunum og tómatkrafti, hitið í 2-3 mínútur og smakkið til með kraftinum og sojunni.

    Held ég kaupi mér beikon til að steikja á morgun.
    Läs mer

  • Dag 54

    Ennþá í Potsdam

    12 maj 2017, Tyskland ⋅ ☀️ 23 °C

    Mig langar að setjast hér að. Staðurinn er hæfilega stór/lítill og fólkið hæfilega afslappað og vingjarnlegt til að ég gæti unað mér vel hérna.
    Ég ætlaði að skoða hallir í dag - en af þeim er nóg hérna - en veðrið var svo svakalegt að ég nennti ekki að vera mikið innandyra. Ákvað því að fylgja mottóinu "sans soucci" (áhyggjulaus/kærulaus) og fór á labbið. Gekk upp að Sanssoucci-höll, kíkti á rússneska hverfið Alexandrowka, hollenska hverfið, Brandenborgarhliðið, og aðal-verslunargötuna, borðaði fyrsta döner ferðarinnar og naut veðursins.
    Ég mældi það ekki, en hef sennilega lagt að baki 8-10 km í dag.
    Er nú komin aftur í bílinn og sötra radler og er að kæla mig niður eftir daginn, áður en ég fer til að þvo þvott.
    Läs mer

  • Dag 55

    Berlín

    13 maj 2017, Tyskland ⋅ ⛅ 17 °C

    Ég "skrapp" til Berlínar í dag - tók lestina og skildi bílinn eftir. Ég fór þangað bara til að versla, þannig að ég tók ekki eina mynd. Kom til baka með Lowa gönguskó, vatnsþétta, því ég ætla ekki að blotna í fæturnar í gönguferðum haustsins.

    Keypti líka bol og hettupeysu (og regnhlíf, því það rigndi í dag og gamla regnhlífin mín gaf upp öndina) í Primark - fór þangað til að kaupa buxur, því að tvennar af þeim fernum buxum sem ég tók með mér hanga ekki lengur upp um mig og ég ákvað að fara með þær í söfnunarkassa Rauða krossins um leið og ég væri búin að finna aðrar í staðinn. Fyrst þær fundust ekki í Primark, þá þarf ég að skoða H&M og C&A í staðinn.

    Skrapp síðan í KaDeWe, sem er berlínsk stórverslun svipuð og Harrods í London. Gæti vel hugsað mér að setjast að á sjöttu hæðinni, en þar er matardeildin. Er ennþá með lyktina af öllum ostunum í nösunum.

    Stefni á að fara til Meissen á morgun og þaðan til Dresden.

    Loks vil ég mæla eindregið með appinu CityMaps2Go, sem bjargaði mér alveg í sambandi við almenningssamgöngurnar í dag.

    P.s. Ef þið viljið að ég viti hver kommentar, þá verðið þið að skrifa undir kveðjurnar 😊
    Läs mer

  • Dag 56

    Potsdam, Germany

    14 maj 2017, Tyskland ⋅ 🌫 11 °C

    Ég ætlaði víst að lýsa þessu dýrðarinnar húsbílastæði sem ég er á. Það er inni í skógi, á bakka Havel-árinnar, sem reyndar minnir meira á stöðuvatn hérna, og er byggt á svæði sem eitt sinn var veiðilendur tilheyrandi Sanssoucci-höll Friðriks mikla. Hér syngja fuglar, en það heyrist líka í stöku flugvél, en ekki þannig að ami sé af.

    Hér er allt til alls, þ.á.m. eldhús með gaseldavélum og örbylgjuofnum og aðstaða til uppvöskunar og neyslu á matnum. Dyrnar opnast sjálfkrafa, því það er vont að þurfa að leggja frá sér diskana til að opna dyr.

    Hér eru líka, fyrir utan þetta venjulega:
    Þvottahús
    Leikjasalur
    Baðströnd
    Hjóla- og bátaleiga
    Veitingahús
    Lítil kjörbúð
    Föndurtímar fyrir börn
    Ferðir um Potsdam með leiðsögn
    Skutla sem fer með mann og sækir á næstu sporvagnastöð
    Svo er hægt að panta nudd, fótsnyrtingu og handsnyrtingu
    Og síðast en ekki síst: það er innifalið internetsamband í gistigjaldinu
    Läs mer

  • Dag 56

    Campingpark Sanssouci

    14 maj 2017, Tyskland ⋅ 🌫 11 °C

    Ég er komin til Dresden, en hér eru nokkrar myndir af Campingpark Sanssouci. Þær eru, eftir röð:
    Aðsetur sumardvalarfólksins;
    Dýralífið (2);
    Skúta;
    Vatnið í morgunkyrrðinni;
    Bíllinn minn við eitt af eldhúsunum.Läs mer

  • Dag 56

    Meißen, Germany

    14 maj 2017, Tyskland ⋅ ⛅ 17 °C

    Ég var komin svo seint til Meißen að það borgaði sig ekki að fara að skoða kastalasafnið, þannig að ég ók til Dresden og er þar á húsbílastæði. Stoppaði samt nógu lengi til að smella af mynd af dómkirkjunni.

    Ætla að skoða mig aðeins hér um í fyrramálið og fara til Meißen eftir hádegi. Sé svo til hvort ég verð aðra nótt á svæðinu og skoða landslagið upp með Saxelfi, eða hvort ég fer til Bamberg. Ætlaði að vera þar á afmælinu mínu, en það næst ekki. Er því komin 1-2 daga á eftir með ferðaáætlunina.

    Kom við í Dessau í leiðinni og skoðaði hið upprunalega Bauhaus. Verð að segja að mér hefur aldrei fundist þessi stefna í byggingarlist aðlaðandi 😊
    Läs mer

  • Dag 57

    Dresden, Germany

    15 maj 2017, Tyskland ⋅ ⛅ 17 °C

    Þegar ég gerði áætlunina fyrir daginn í dag gleymdi ég að mánudagar eru hefðbundnir lokunardagar fyrir söfn, og öll söfnin í Zwinger-byggingunni voru því lokuð. Hvað um það, ég heimsæki bara postulínssafnið í fyrramálið og ef ég verð innan við tvo tíma að skoða það, ætla ég líka á Alte Meister málverkasafnið.

    Ég fór á labbið í staðinn fyrir að skoða söfn og blandaði saman skoðunarferð um Altstadt og verslunarleiðangri. Ég fann loksins buxur í staðinn fyrir þessar sem eru orðnar of stórar á mig, fékk mér ferskan aspas í hádegismatinn (hann er alls staðar til sölu, en fá veitingahús bjóða upp á hann), skoðaði hinar og þessar byggingar að utan og leit inn í Frauenkirche, en þar stóð yfir guðsþjónusta, svo ég stoppaði ekki lengi.

    Ég íhugaði að fara í siglingu á Saxelfi, en sú sem ég hafði mestan áhuga á var hátt í fjögurra tíma löng, og leiðsögnin á þýsku.

    Veðrið var frábært, pínkulítið of heitt yfir hádaginn, en þegar leið á daginn kom svalur vindur sem kældi mann niður.

    Allt í allt verð ég að segja að þetta var hinn ágætasti afmælisdagur.
    Läs mer

  • Dag 58

    Safnadagurinn mikli

    16 maj 2017, Tyskland ⋅ ⛅ 17 °C

    Ég var mætt í miðborgina á slaginu tíu og komin upp í Zwinger korter yfir, rétt til að heyra í klukknaspili byggingarinnar. Ég held að bjöllurnar séu úr postulíni!

    Skoðaði einstakt postulínssafn, heillandi safn gamalla mælitækja sem flest eru líka skrautmunir, og síðast en ekki síst Alte Meister málverkasafnið.

    Að þessu loknu snæddi ég síðbúinn hádegisverð, sór þess eið að snúa aftur og skoða Dresden, Meißen og Saxneska Sviss almennilega (gefa mér svona viku), og lagði af stað til Bamberg.

    Er nú við Störmthaler See, vatn sem er svo smátt að það er ekki á neinu af kortunum mínum, og verð hér í nótt.

    Steikti mér pönnsur áðan, ætlaði að gera það á afmælinu í gær, en aðstæður buðu ekki upp á það. Hér var hins vegar logn, þannig að ég gat athafnað mig úti við.
    Läs mer

  • Dag 59

    Sanspareil, Þýskalandi, 17. maí

    17 maj 2017, Tyskland ⋅ ☀️ 23 °C

    Ég ók í gegnum Frankishe Schweiz á leiðinni til Bamberg, og kom þar við í Felsengarten Sanspareil, sem mætti þýða sem "steinagarðurinn óviðjafnanlegi".
    Ég ók í gegnum hæðótt, skógi vaxið landslag til að komast þangað, með litlum þorpum sem minntu mann á Alpana. Ég vildi gjarnan geta sýnt myndir, en það var hvergi hægt að stoppa nema í innkeyrslum hjá þorpsbúunum.
    Sanspareil var útbúinn, á 18. öld, sem óvenjulegur lystigarður. Stígar voru lagðir á milli stórbrotinna, sorfinna sandsteinskletta og byggt var á sumum klettunum, eða við þá, til að segja sögu úr rómversku goðafræðinni. Væntanlega þarf maður sögumann með sér til að skilja táknin, en það er engu að síður gaman að ganga þetta einn og lesa söguna af skiltum.
    Garðurinn er í raun villtur skógur með þessum klettum sem hefur verið föndrað við og er yndislegur staður að koma á og eyða 1-2 tímum í að ráfa um og njóta kyrrðar og náttúrufegurðar, og helmingurinn af nautninni er að komast þangað.
    Läs mer

  • Dag 59

    Bug, Þýskalandi, 17. maí

    17 maj 2017, Tyskland ⋅ ☀️ 24 °C

    Ég fann heimilisfang tjaldstæðisins sem ég er á í 10 ára gamalli ferðahandbók. Það er svo fastgróið að það hefur sitt eigið strætóstopp, og geri aðrir betur.

    Bug er lítið þorp í útjaðrinum á Bamberg. Það tekur um 15-20 mín. að komast frá tjaldstæðinu inn í miðbæ Bamberg, sem ætti að segja ykkur hversu stór Bamberg er.

    Bamberg er merkilegur staður. Hún slapp alveg við sprengjuregn í stríðinu og fyrir bragðið er hún ein best varðveitta miðaldaborg Þýskalands og komst þannig inn á heimsminjaskrá UNESCO. Þarna eru m.a. hátt í 1000 ára gamlar byggingar.

    Ég kom þangað síðdegis og skoðaði mig aðeins um, en flúði loks til baka á tjaldstæðið vegna hita. Hann fór hátt í 30 °C, sem var aðeins of heitt fyrir mig í þeim fötum sem ég var í.
    Läs mer