Á ferð og flugi um landið. Read more Reykjavík, Iceland
  • Day 21

    Provins - Champagne

    June 4, 2023 in France ⋅ 🌙 18 °C

    Frá Fontainebleau fór ég til Provins, bæjar sem er þekktur fyrir vel varðveitt virki og hús frá miðöldum, svo mjög að hann fór á heimsminjaskrá 2001. Það var álíka djöfullega heitt í dag og í gær, en það bjargaði miklu að það var nægur vindur til að maður var ekki alveg að stikna úti við.

    Fann mér svo notalegt tjaldsvæði í Dormans í Marne-dalnum, innan um vínekrur. Keyri kannski Kampavínsveginn á morgun. Verst að geta ekki komið við og smakkað - mig langar alveg í kampavínssmökkun en langar hinsvegar ekkert til að láta taka mig fyrir ölvunarakstur😉
    Read more

  • Day 21

    Fontainebleau

    June 4, 2023 in France ⋅ ☀️ 24 °C

    Í dag fór ég og skoðaði Fontainebleau, fyrrum aðsetur franskra konunga og keisara. Hún minnir mig um margt á Hampton Court-höll í Englandi, s.s. að því leyti að þetta er algert völundarhús, þarna eru híbýli frá mörgum tímabilum og sagan spannar aldir og marga konunga og drottningar, nokkra Napoleóna og a.m.k. einn páfa. Vel þess virði að gera sér dagsferð frá París, og hún er ekki eins vinsæl og Versalir, sem þýðir minni troðningur og færra fólk.

    Ég hitti svo á að það var listahátíð í gangi, sem fjallaði annars vegar um Belgíu og hins vegar um veðurfar í list, en þar sem fyrirlestrarnir voru á frönsku gagnaðist það mér lítið. Hins vegar var ókeypis inn í tilefni hátíðarinnar og opið inn í málverkagallerí sem oftast nær er lokað almenningi. Svo voru ungir leiðsögumenn að segja fólki frá hinu og þessu og ég græddi á því. Mjög góð heimsókn.
    Read more

  • Day 20

    Nemours

    June 3, 2023 in France ⋅ ☀️ 25 °C

    Dagurinn fór í akstur. Er nú komin til Nemours, stutt frá Fontainebleau. Er á húsbílasvæði niðri við á. Bærinn er ekkert smá fallegur!

    Það er 28 °C hiti og ég ligg eins og skata inni í bíl með opið út og reyni að hreyfa mig sem minnst. Langar helst að stinga mér í ána til að kæla mig niður. Verst að það eru ekki sturtur á þessu stæði, sem þýðir blautþurrkubað í fyrramálið.

    Hér virðist vera siður þegar fólk giftir sig að brúðhjónunum er fylgt eftir af bílalest þegar þau aka af stað í brúðkaupsferðina, með blikkandi ljósum og flautuna í botni. Varð vör við a.m.k. 4 brúðkaup og þar af leiðandi mikinn hávaða og umferðarteppu þegar ég fór í miðbæinn til að skoða mig um.
    Read more

  • Day 19

    Saint-Brieuc - Paimpol - Le Pertre

    June 2, 2023 in France ⋅ ☀️ 22 °C

    Ég ók til Saint-Brieuc síðdegis sama dag og ég var í Mont Saint-Michel, og gisti þar á tjaldsvæði í litlu dalverpi inni í bænum. Bíllinn var skítugur fyrir, en hann skánaði ekki að vera lagt í skugga trjáa sem voru full af dúfum og svartþröstum. Það varð því mitt fyrsta verk þegar ég fór af tjaldsvæðinu morguninn eftir að finna bílaþvottastöð og setja Kadda í þrifabað. Það náðist næstum því allt af honum, nema nokkrar klessur sem hljóta að hafa komið úr mávarössum.

    Ók svo til Paimpol. Sá bær er enn þann dag í dag þekktur fyrir útgerð, en í gamla daga var hann þekktastur sem bærinn þaðan sem Íslandsskipin svokölluðu voru gerð út. Einn forfaðir minn var sjómaður á slíku skipi og beið skipbrot við Ísland og skildi eftir barn þegar hann fór heim aftur. Því miður reyndist sjóferðasafnið vera lokað vegna breytinga, svo ég skoðaði mig um í miðbænum og brenndi svo til Rennes.

    Þar lenti ég í klassísku tjaldsvæðaveseni: það fyrsta fannst ekki og nr 2 og 3 voru lokuð og ekki hræðu að sjá. Ég hafði neyðst til að skrá mig í klúbb til að fá aðgang að húsbílasvæðinu í Beauvoir og fór inn á vefsíðuna hjá honum, vitandi að stæðin sem hann veitir aðgang að eru opin allan sólarhringinn. Fann eitt og keyrði um 120 km til að komast á það. Sem betur fer var það bæði skuggsælt og rólegt, því það var vel heitt í gær og ég var með hálfgert mígreni þegar ég komst þangað.
    Read more

  • Day 18

    Mont Saint-Michel

    June 1, 2023 in France ⋅ 🌙 14 °C

    Fyrir svo löngu síðan að ég geri mér ekki grein fyrir hvenær, sá ég, í einhverri kvikmynd, þríhyrningslaga virkisborg með kirkju með háum turni, úti á eyju sem tengd var landi með löngu eiði. Hún leit út eins og hilling úti á sjónum og ég ákvað að einhvern tímann mundi ég heimsækja þennan stað. Hér eru nokkrar myndir frá heimsókninni.

    Nú á ég bara eftir að heimsækja Saint Michael's Mount í Kornbretalandi, sem er svipaður staður, þó hann sé ekki eins tilkomumikill.
    Read more

  • Day 17

    Bayeux - Beauvoir

    May 31, 2023 in France ⋅ ☀️ 23 °C

    Heimsótti í dag 2 söfn, sem bæði snúast um stríð, en á gjörólíkan hátt. Bayeux-refillinn segir söguna af orrustunni við Hastings árið 1066 og aðdraganda hennar. Handverkið á honum er snilldarlegt og hann er í einu orði sagt listaverk. Engar myndir, því ljósmyndun er bönnuð inni á safninu.

    Svo fór ég á safn tileinkað innrásinni í Normandí. Hún hófst í maí 1944 og því hafa ýmsir viðburðir og athafnir henni tengd verið haldnir undanfarið og eru framundan. Ég hitti á þar sem breskir kadettar voru að leggja valmúasveiga við minnismerki við safnið. Ég skoðaði svo safnið og það er s.s. ekki mikið um það að segja annað en að það er stórt og ítarlega er sagt frá innrásinni.

    Loks kíkti ég á stærsta breska hermannagrafreitinn í Normandí. Maður kemst ekki hjá því að klökkna við að sjá alla þessa legsteina, ekki síst þegar maður les á þá og sér að flestir þeir sem þarna eru grafnir voru innan við þrítugt. Sorglegt.

    Ók svo til Beauvoir. Á morgun skoða ég Mont Saint-Michel.
    Read more

  • Day 16

    Boulogne-sur-Mer - Bayeux

    May 30, 2023 in France ⋅ 🌬 12 °C

    Það er lítið um daginn í dag að segja, annað en að hann fór í ferðalög. Ég ók meira enn 400 km í dag, talsvert á hraðbrautum, en líka á þjóðvegum og sveitavegum. Er búin að sjá helling af fallegu landslagi í dag og aka yfir nokkrar risabrýr, þ.á m. hina stórfenglegu Point de Normandie sem spannar Signu nálægt mynni hennar, á milli Le Havre og Honfleur.

    Er komin til Bayeux og ætla að skoða Bayeux-refilinn fræga á morgun, og hugsanlega safn tileinkað innrásinni í Normandie.
    Read more

  • Day 15

    Calais - Boulogne-sur-Mer

    May 29, 2023 in France ⋅ 🌬 13 °C

    Ég hóf ferðalag dagsins í því að kíkja á ráðhúsið í Calais. Turninn á því er á heimsminjaskrá. Ráðhúsið er mun reisulegra en það í Reykjavík, en er líka svolítið óraunverulegt, eins og það sé byggt úr Legokubbum.

    Ég komst svo loksins út í náttúruna í alvöru gönguferð. Ég ók meðfram svokallaðri Ópalströnd í dag (kennd við mjúka, merlandi birtuna þar, sem listmálarar dýrka) og stoppaði við Blanc-Nez-höfða og gekk meðfram honum, niður að ströndinni og upp í gegnum smábæinn Escalles, ca. 5 km, í fínasta gönguveðri: sólskini og svölum vindi utan af Ermarsundi.

    Síðan ók ég til Boulogne-sur-Mer og heimsótti sjávar- og sædýrasafnið Nausicaa, sem er eitt það stærsta í Evrópu. Það kostar talsvert inn, en er vel þess virði ef maður hefur áhuga á sjávarlífverum og málefnum hafsins.
    Read more

  • Day 13

    Dunkerque-Calais

    May 27, 2023 in France ⋅ ☀️ 14 °C

    Þetta er viðburðaríkasti dagurinn hingað til - og allt gott: hæfilegt veður, þ.e. 🌞 og um 20 °C hiti með svalri hafgolu. Er komin á tjaldsvæði kennt við sandlóu (le grand gravelot).

    Ég ákvað að taka því rólega og rúntaði fyrsta áfangann meðfram ströndinni í stað þess að keyra þjóðvegi og hraðbrautir - var orðin þreytt á að sjá ekkert nema bíla, trjágróður og steypu.

    Fyrsta stopp var á stríðsminjasafninu í Dunkerque (mynd 3). Það er tileinkað flótta breska hersins þaðan, sem hófst 26. maí 1940. Það hefði verið gaman að vera þar í gær, jafnvel þó það hafi ekki verið stórafmæli.

    Síðan fór ég til Calais, og villtist því miður út á hraðbraut, en það gerði mér þó kleift að heimsækja, án þess að þurfa að gera það á sprettinum, Cité de la Dentelle et de la Mode. Það er safn tileinkað blúndu- og knipplingagerð og tengdri tísku og er með flottari handverks- og fatasöfnum sem ég hef komið á. (myndir 4 og 5).

    Loks uppgötvaði ég að sumartíminn er að hefjast í Calais, þ.e. ferðamannatímabilið hófst opinberlega í dag og var ræst af stað með stórkostlegri sýningu fjöllistahópsins Gratte Ciel, TAWA, sem samanstendur af tónlistarflutningi, söng, dansi, fimleikum og loftfimleikum (mynd 6). Alveg hreint stórkostlegt, og ég sveif heim á tjaldsvæði á marglitu vellíðunarskýi og það án þess að skynörvandi efni hafi komið til. Mér finnst að það ætti að fá þennan hóp á listahátíð í Reykjavík!

    Myndir 1 og 2 eru frá ströndinni í Calais. Þetta er það næsta sem ég hef komist sjónum í ferðinni.
    Read more

  • Day 12

    Middelkerke

    May 26, 2023 in Belgium ⋅ 🌬 13 °C

    Jæja, bíllinn er ekki hættur að vera til vandræða. Ég var leggja af stað í leiðangurinn til Tournai og Lille um ellefuleytið þegar nágranni minn á húsbílastæðinu kom hjólandi upp að hliðinni að bílnum og benti mér á að það væri sprungið á afturdekkinu farþegamegin. Ég þakkaði honum fyrir - ég fann ekki fyrir neinu, þó ég hefði eflaust fundið það um leið og ég kom út á götu og jók hraðann.

    Ég var sem betur fer með litla en öfluga rafknúna hjólapumpu í bílnum og gat dælt nægilega í dekkið til að ég komst á næsta verkstæði. Fjandans dekkið var auðvitað ónýtt, og ég keypti því ný afturdekk undir Kadda. Það urðu um 220 evrur.

    Fór svo til Tournai og skoðaði hina stórmerkilegu Frúarkirkju borgarinnar (myndir 1-3) og frístandandi klukkuturn (mynd 4) í nágrenninu; bæði eru á heimsminjaskrá USESCO.

    Svo rakst ég inn í Saint-Quentin-kirkjuna sem stendur við aðaltorgið. Þar var einhver að æfa sig á stærðarinnar pípuorgel, þannig að ég fékk smá tónleika.

    Lauk svo leiðangrinum með verslunarleiðangri í Westfield-kringluna í Lille - það leka af mér kílóin þessa dagana og mig vantaði eitthvað sem passar á mig og hentar veðrinu hérna.
    Read more

Join us:

FindPenguins for iOSFindPenguins for Android